150. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2019.

þjóðarsjóður.

243. mál
[15:55]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nei, ég tel að það eigi við um sjóð eins og þennan, með svipuðum hætti og aðrar varúðarráðstafanir sem ég hef rakið hér í dag, að það er langbest að það skapist sem mest sátt í þinginu, enda hef ég verið að rekja það hér að áður en til þess getur komið að hámarkssöfnun í sjóðinn verði náð líði jafnvel 15–20 ár. Það gefur því augaleið að ekki er verið að horfa til einhvers sem á að gerast í einni hendingu heldur yfir mörg kjörtímabil. Af þeirri ástæðu er alveg augljóst að það skiptir máli að ná sem bestri sátt. Hins vegar kann að vera að einhverjir vilji gera ágreining og mér finnst að margt af því sem nefnt hefur verið til að andmæla þessum hugmyndum sé hreinlega á misskilningi byggt. Ég var rétt áðan í andsvari við hv. þingmann sem taldi að þetta myndi draga úr getu okkar til þess að sinna t.d. bráðamóttöku á spítala. Það er bara ekki rétt. Þá hljótum við að verða að komast í gegnum slíka umræðu.