150. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2019.

þjóðarsjóður.

243. mál
[16:22]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að í raun og veru séum við hv. þingmaður sammála um margt en þó ekki um áhrifin af þessu frumvarpi á getu til að sinna verkefnum. Ég vil þó taka það fram, bara þannig að það sé enginn misskilningur, að það er fórnarkostnaður af því að stofna þjóðarsjóð. Það eru þá ákveðnir aðrir hlutir sem ekki er hægt að gera fyrir þann sama pening. En hið flókna samspil lausafjárstýringarinnar við fjárlögin og fjármálareglurnar þarf að vera á hreinu og það snýst um það að hvort sem er þjóðarsjóður eða ekki þurfum við að sinna þessum verkefnum og það þrengir ekkert að okkur með að sinna þeim meira en leiðir af afkomureglu og þeirri fjármálastefnu sem við fylgjum.

Stóra spurningin er í raun og veru eingöngu þessi, eins og ég horfi á málið: Væri þeim fjármunum betur varið til skuldauppgreiðslu? Ég rakti það í máli mínu að það væri engin brýn þörf á því. Ættum við frekar að nýta þá peninga til þess að fara beint í fjárfestingar? Það er rétt að þjóðarsjóðspeningarnir, peningar sem koma sem arðgreiðslur frá orkufyrirtækjum, gætu nýst til að fjármagna slíkt. En þá bendi ég á að við eigum margar aðrar leiðir sömuleiðis til að fjármagna slíkar framkvæmdir.

Síðan þegar öllu er á botninn hvolft þarf maður bara að hafa einhverja skoðun á því hvort það sé góð ráðstöfun fyrir þjóðina að byggja upp svona áfallasjóð eða ekki, hvort við lítum mögulega í framtíðinni til baka til þess tíma sem við lifum núna og spyrjum okkur: Hefði ekki verið gott að nýta svigrúmið sem þarna gafst til að hefja uppsöfnun sjóðs til að mæta áföllum? Þau geta birst okkur í alls konar myndum, eins og ég hef rakið. Það er spurningin: Getum við verið sammála um mikilvægi þess fyrir þjóðina?