150. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2019.

sviðslistir.

276. mál
[16:00]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni, það er mjög brýnt að listin fái að njóta sín um allt land. Við leggjum áherslu á það eins og ég nefndi með uppbyggingu þessara menningarsala og ég tek það sem góða ábendingu líka við frumvarpið að hér kann að vera að við þurfum að leggja meiri áherslu á orðræðuna hvað varðar sviðslistir úti á landi.

Ég legg til að þegar frumvarpið fer til nefndar verði gert meira úr því og við skoðum það bara. Ég tek mark á því vegna þess að það er þannig, bæði varðandi menntun og menningu, að það verður að ríkja jafnræði allra að menntun og að geta iðkað menningu. Við sjáum ákveðnar vísbendingar um það í menntarannsóknum og öðru slíku að það sé ekki endilega svo. Eitt af því sem ég vil beita mér fyrir er að við náum að tryggja þetta jafnræði óháð búsetu, efnahag, uppruna og hvar sem maður er staddur eða hvaðan maður kemur. Það er gríðarlega mikilvægt því að ef við gerum það ekki er hætta á að það verði ákveðin mismunun og að við höfum ekki sama aðgengi. Ég legg líka mikla áherslu á það og nefni til að mynda frístundakortin sem flest sveitarfélög eru með. Þau eru gríðarlega mikilvæg til að tryggja jafnt aðgengi barna og ungs fólks að listum, íþróttum og öðru slíku. Við eigum að vera samfélag þar sem allir geta notið sín.