150. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2019.

sviðslistir.

276. mál
[16:04]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina og þann áhuga sem hann sýnir frumvarpinu og líka fyrir að deila þeirri reynslu sem hann hafði sem dansari á sínum tíma. Mig langar svolítið að sjá þetta, ég hef ekki séð þessa dýrð enn þá og kannski kynnir hann mér hana.

Ég vildi nefna nokkra þætti sem við erum að gera varðandi landsbyggðina og að efla menningu á landsbyggðinni. Það er í fyrsta lagi sóknaráætlun. Þar eru umtalsverðir fjármunir. Við erum með menningarsamninga og í ráðuneyti mínu höfum við tekið tillit þess ef við sjáum að hugsanlega þarf að auka eða bæta við og starfið er framúrskarandi. Hv. þingmaður þekkir til þessa. Við erum með styrki til atvinnuhópa og áhugahópa og svo eru auðvitað listamannalaunin þannig að allir landsmenn geta sótt um þau.

Varðandi aðgengi að listum sem hv. þingmaður vísaði í er ég á því að við þurfum svolítið sem samfélag að huga að aðgengismálum. Eitt af því sem ég hef verið að skoða í ráðuneyti mínu varðar söfnin, bæði bókasöfnin og öll söfnin sem við eigum. Við þekkjum að þegar það er tiltölulega lítill tilkostnaður eða jafnvel ókeypis inn á söfn stóreykst áhugi á söfnun. Það er alveg gríðarlega mikilvægt til að efla alla menningu í landinu. Við höfum verið að skoða hvort það sé möguleiki á því að horfa til að mynda til ríkja eins og Bandaríkjanna sem eru oft rædd hér í salnum en þá ekki út frá menningu og listum. Í höfuðborg Bandaríkjanna er ókeypis inn á öll söfn enda eru öll söfn þar troðfull allar helgar. Það er bara partur af lífi fjölskyldunnar að fara á safn og mér finnst að við ættum að skoða þetta. Ef þingheimur er tilbúinn að styðja við aukna fjármuni í þá veru er ég að sjálfsögðu til viðtals um það.