150. löggjafarþing — 25. fundur,  24. okt. 2019.

stjórnarskipunarlög.

279. mál
[14:59]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hér kristallast kannski ástæðan fyrir gagnrýni minni á að hv. þingmaður komi ekki bara hingað upp í ræðu vegna þess að ég myndi vilja spyrja hann ótal spurningar á móti. Hvers konar staðla hefur hv. þingmaður fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu sem Alþingi Íslendinga ber að taka mark á? Eru sumar betri en aðrar? Á hv. þingmaður sér uppáhaldsþjóðaratkvæðagreiðslu sem framkvæmd var með þeim stöðlum sem hann vildi óska? (BÁ: Sumar eru bindandi, aðrar ekki t.d.) Hv. þingmaður vísar hér úr salnum í bindandi og ekki bindandi þjóðaratkvæðagreiðslur. En ég spyr hv. þingmann — og fæ náttúrlega ekki svar vegna þess að hv. þingmaður kemur í andsvar við mig en heldur engar ræður um þetta mál: Af hverju ætti þjóðin að halda að nokkurt mark verði tekið á henni aftur? Af hverju ættum við að komast einu sinni upp fyrir 50% í einni einustu þjóðaratkvæðagreiðslu eftir þessa, þegar það eina sem Alþingi Íslendinga gerir er að gefa frat í skoðanir þjóðarinnar? (Gripið fram í.)