150. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[14:38]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er ósköp skýrt. Þegar þessi ríkisstjórn tók við völdum voru veiðileyfagjöldin 11,2 milljarðar. Þegar fjárlagafrumvarpið var lagt fram fyrir einungis tveimur mánuðum stendur það í 7 milljörðum. Nú liggur fyrir að þau eiga að lækka niður í 5 milljarða kr. Þetta er það sem ég er að tala um. Þetta er fyrirséð þróun. Þegar lögunum var breytt árið 2018 benti Samfylkingin ásamt Alþýðusambandinu og fleiri aðilum á að það myndi þýða lækkun veiðileyfagjalda. Þegar kemur að kostnaðinum vísa ég bara beint í frumvarp sjávarútvegsráðherra sem tiltekur í frumvarpi sínu um veiðileyfagjöld hvað felist í þeim kostnaði sem skattgreiðendur verða fyrir vegna greinarinnar. Það er 5,1 milljarður. Það er sem sagt hærra en þið treystið ykkur til að innheimta í veiðileyfagjöld á næsta ári og það finnst mér mjög sérkennilegt.

Tilgangur veiðileyfagjalds er tvenns konar, að mæta kostnaði, sem það gerir ekki lengur, og veita þjóðinni beina og sýnilega hlutdeild í afkomu veiðanna. Þetta stendur beinlínis í greinargerð hæstv. sjávarútvegsráðherra. Það getur ekki verið skýrara, herra forseti.