150. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[16:31]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Mér fannst ég vera nauðbeygður til að koma hingað upp í ræðustól í ljósi þess að ég er væntanlega sá eini þingmaður sem hef haldið klukkutímaræðu. [Hlátur í þingsal.] Mér þykir leiðinlegt að hv. þingmanni hafi fundist hún leiðinleg en mér fannst hún ekkert leiðinleg (Gripið fram í: … mjög skemmtileg.) og mér fannst þetta líða ansi hratt. Ég er ekki talsmaður langra ræðna og hef aldrei verið það og ég er alveg til í að menn hugsi hvernig skoðanaskiptin geti verið líflegri í þessum sal. En þegar kemur að fjárlögum þá finnst mér þetta algjörlega eðlilegt. Hér er verið að takast á um grundvallaratriði og það sást mjög vel t.d. í andsvörum, það voru ekki síst þingmenn stjórnarflokkanna sem fóru í andsvar við mig því að hér greinir okkur einfaldlega á. Auðvitað get ég tekið undir að það er margt í þessum þingsal sem gæti verið líflegra en ég held að fjárlagaumræðan hingað til hafi verið afskaplega góð þótt ég segi sjálfur frá.