150. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[17:55]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P):

Ó, freðni rymböggull,

yðar þvagleki birtist mér,

eins og plúðruð blaðurklessa, á miðsumarsmorgni,

á lúsugri býflugu.

Sem tilfinnanlega hefur kjaftað um,

sínar jótrandi ertur, kvartandi.

Inn í rotnandi fnyk af ómótstæðilegum líffæraorgara.

Nú hin joðlandi mokna reiðkrot

lepja öxulsvita svengdarvera.

Og lifandi grúplar fareta og heimta

eins og loðið hrátt lifrarslím.

Gróp, ég bið yður, mín svímandi túðmenni,

hopplega hríslið mig

með krumpuðum bindisnælum, stöppuðum.

eða ég mun rífa af yður gubbvörturnar með blótkylfunni.

Sanniði til.

Svona hljómar íslensk þýðing mín á ljóði Jeltz í Leiðarvísi puttaferðalangsins um vetrarbrautina eftir Douglas Adams, lauslega byggð á þýðingu ljóðsins í samnefndri kvikmynd, og segir allt sem segja þarf um þetta fjárlagafrumvarp og þá vinnu sem Alþingi setur í afgreiðslu fjárlaga. Fyrir íslenskukennara framtíðarinnar skal ég útskýra nánar hvað ég á við.

Hv. formaður fjárlaganefndar var spurður í andsvörum fyrr í dag hvort það væri verið að fara eftir lögum um opinber fjármál. Svarið við þeirri spurningu var einfaldlega: Já. Það er hins vegar eins langt frá því og hægt er að fara hvað þetta varðar því að við búum við ákveðna fortíðarhyggju. Það má ganga út frá því að almennt séð meini fólk vel og geri sitt besta miðað við aðstæður hverju sinni og fyrirliggjandi verklag. Í því felst að framkvæmd fjárlaga hvert ár byggir á fyrri framkvæmd, þ.e. hvernig hlutir hafa alltaf verið gerðir áður. En framþróun á sviði fjárlagagerðar er jafn óumflýjanleg og á öðrum sviðum þjóðlífsins. Við skrifum fjárlög ekki lengur með rúnaletri á fjöl og heimtum ekki umsagnir í gegnum bréfpóst eða með firðskeyti. Möguleikar okkar á nákvæmum greiningum vegna ákvarðana stjórnvalda eru stjarnfræðilega miklu meiri en fyrir 100 árum og er tilvitnun í ljóðlist Vogona því viðeigandi, en Vogonar eru einstaklega ónæmir fyrir breytingum, gjörsamlega þola þær ekki, það þarf þrírit og fjórrit o.s.frv. Eitthvað er talað um ömmu þeirra hvað það varðar. Ég get hins vegar ekki séð að þessi greiningartæki séu notuð. Við höfum kallað eftir þó nokkuð mikið af upplýsingum úr fjárlaganefnd en ég sé ekki afurð þeirra upplýsinga sem við fengum í skilum nefndarinnar. Við höfum enn í höndunum frumvarp til fjárlaga, sem er nokkurn veginn óbreytt, og í því er viðbótarsamkomulag vegna kirkjujarðasamkomulagsins sem stenst ekki lög um opinber fjármál.

Áhrif þess á Alþingi eru þau að við erum enn og aftur að fá afhent frumvarp til fjárlaga sem byggist á ágiskunum um það hversu mikið fjármagn þurfi í hin ýmsu verkefni. Jafnvel þegar til eru kostnaðargreiningar fá þingmenn ekki aðgang að þeim. Réttast væri auðvitað að handhafar fjárveitingavaldsins fengju aðgang að þessum greiningum og gætu að sama skapi leitað umsagna og álita um þær til þess að hægt sé að taka upplýsta ákvörðun um þjónustustig í heilbrigðiskerfinu, rekstrarfyrirkomulag í eftirliti með matvælaöryggi, til þess að geta raunverulega greint hvar sé bruðlað og hvar sé snuðað.

Vinnsla fjárlagafrumvarpsins virðist byggjast á einföldu skipulagi. Ríkisstjórnin leggur fram algjörlega ógagnsætt fjárlagafrumvarp, algjörlega. Til þess að fylgja forminu kallar fjárlaganefnd eftir umsögnum og fær til sín gesti. Þá er búið að tikka í eitt box. Þegar því lýkur kemur út ný þjóðhagsspá og ráðuneytið kemur með endurútreikninga sem er troðið inn í nefndarálit og 2. umr. fjárlaga án nokkurs tíma til athugasemda frá umsagnaraðilum. Meðal breytinga í 2. umr. má t.d. nefna lækkun framkvæmdafjár til nýja Landspítalans um 3,5 milljarða kr. út af væntanlegum töfum. Við vitum hins vegar ekkert um forsendur þeirra útreikninga, hvort þær séu raunsæjar, nægilegar, eða hvort þær séu réttar yfir höfuð. Eru í alvörunni forsendur fyrir töfum? Ef svo er, af hverju eru þá forsendur fyrir flýti framkvæmda á árunum þar á eftir? Verða þá ekki meiri líkur á að það verði einfaldlega gerð mistök með auknum framkvæmdahraða á seinni árum? Þar sem ekkert færi gefst á að bera slíkar breytingar undir umsagnaraðila og gesti fara þær nær gagnrýnislaust inn í álit meiri hlutans og verða að öllum líkindum afgreiddar óbreyttar.

Það virðist einna helst vera formsatriði að kalla gesti á fundi fjárlaganefndar sem fá svo að messa í örstutta stund yfir nefndarmönnum. Líkja má slíkum gestakomum við eins konar skammarkrók þingmanna, sem er alveg ágætt út af fyrir sig, sem þeir þurfa bara að þola í smástund svo að halda megi áfram með málið án þess að taka mikið tillit til umkvartana og athugasemda gestanna. Smáklink hér og þar til að friða samvisku einhverra. Umsagnaraðilar eru nefnilega með alveg jafn lítil gögn í höndunum og þingmenn til þess að greina fjárlögin og gefa umsagnir. Það gerir það að verkum að umsagnir eru almennt séð mjög yfirborðskenndar þar sem umsagnaraðilar verða að púsla saman þeim tölum sem hægt er að finna og bera saman við gefna reynslu fyrri ára og vonast til þess að það eigi við. Það séu ekki of miklar tilfærslur innan málefnasviða eða -flokka til þess að hrófla eitthvað við því sem þeir eru hugsanlega að gera athugasemdir við. Þetta er svipað því að setja saman púsluspil sem er bara með svörtum púslum. Það er mjög erfitt að máta saman hvort það sé í raun rétt.

Gæðaeftirlit þingmanna er einungis til málamynda. Sem dæmi má nefna að þetta árið standa þingmenn t.d. uppi með viðbótarsamning vegna kirkjujarðasamkomulagsins sem einfaldlega fer gegn lögum um opinber fjármál. Ætla mætti að gefinn hefði verið tími til þess að rannsaka forsendur þess samnings og áhrif hans á fjárlög eða fjármálaáætlun. Hið rétta er að það rétt gefst tími til þess að spyrja ráðuneytið álits á þeim álitaefnum sem þar er að finna á fundi sem ætlaður var í annað, þ.e. í yfirferð á endurútreikningum vegna nýrrar þjóðhagsspár. Svörin við álitaefnunum voru nákvæmlega engin. Einna helst mátti heyra sama frestunarþvaðrið og heyrist alltaf þegar reynt er að sinna alvörueftirliti með störfum framkvæmdarvaldsins. Spurningarnar voru þó það áleitnar, og má sjá þær í fylgiskjali I, að gefinn var örlítill tími í sérstakan fund um málið. En þar var engin sérstök svör að finna og allt endaði í sömu hringavitleysu og áður. Við stöndum eftir á nákvæmlega sama stað og við erum með núgildandi samning, hvað þá þennan viðbótarsamning.

Staðreyndin er sú að þingið getur ekki sinnt eftirlitshlutverki sínu. Fyrir því mætti helst nefna nokkrar ástæður: Þingmenn meiri hlutans leyfa ráðuneytinu að valta yfir þingið með innihaldslausum svörum. Af því að í íslenskum stjórnmálum gildir meginreglan um meirihlutaræði sem framselur sjálfstæðan vilja og sannfæringu þingmanna að nokkurn veginn öllu leyti til ráðherra þegar kemur að eftirlitsskyldu Alþingis. Mál eru tafin, þæfð, útvötnuð, gert er lítið úr þeim, snúið út úr og öllum brögðum beitt til að forðast ábyrgð. Ég get minnst á spurningar mínar um akstursgreiðslur og starfskostnað þingmanna sem tók heilt ár að grafa upp. Það er mál fyrir fjárlaganefnd sem er búið að viðurkenna í skjölum og svörum þingsins að ráðherrar hafi ekki verið að fara eftir reglum um dagpeninga. Það er ekki enn þá búið að klára það. Það er vel rúmt ár síðan það var. Ég þori ekki einu sinni að reikna hversu langur tími hefur farið í það mál, er að reyna að ýta á eftir því að fá eitthvað í gang þar en ekkert gerist eins og venjulega þegar eftirlitshlutverkið er annars vegar.

Augljósa spurningin hlýtur því að vera sú hvernig hægt sé að gera betur. Æskilegt fyrsta skref væri fyrir stjórnvöld að fara eftir lögum, enda er ágætissnið að gæðakerfi fyrir fjárlög að finna í lögum um opinber fjármál. Fólk spurði sig hér áður: Hvernig getum við gert betur? Niðurstaðan var lög um opinber fjármál. Hingað kom gott plagg, gerum þetta svona, þetta er sniðugt. En svo er ekkert farið eftir því. Algjörlega galið. Þar er gæðakerfi sem byggist upp á kostnaðar- og ábatagreiningu. Dæmi um slíka greiningu er að finna í þingsályktun um stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga. Þar kemur fram að sameining sveitarfélaga gæti sparað um 3–5 milljarða kr. á ári. Þetta er auðvitað ekki allt fullkomið, það er engin kostnaðar- eða ábatagreining laus við gagnrýni og pólitíkin hverfur ekki með slíkum greiningum en hún gæti breyst. Pólitíkin grundvallast með slíkum áætlunum á betri gögnum og færri getgátum um áhrif einnar hugmyndafræði umfram aðra. Rökræður og skoðanaskipti verða hnitmiðaðri og allt starf þingmanna og fjárlaganefndar verður markvissara og áhrifaríkara. Krónur eru síðan ekki upphaf og endir alls í þessum greiningum af því að þar er miklu meira verið að tala um stefnu stjórnvalda. Þar má einnig taka tillit til ýmissa annarra þátta en bara krónutalna sem stjórnvöld bera ábyrgð á eins og þjónustustigs og lýðheilsu. Þar koma inn í spilið ágætishugmyndir um velsældarhagkerfið sem ég get vonandi fjallað nánar um síðar í ræðunni.

Lög um opinber fjármál hafa verið uppáhaldsumræðuefni mitt undanfarin ár í umræðu um fjárlög og fjármálaáætlun og kannski eilítið öðruvísi pólitík sem ég stunda en ýmsir aðrir flokkar sem tala um krónutölur hingað og þangað. En mér finnst það tiltölulega gagnslaust þegar við erum með svona ógagnsætt fjárlagafrumvarp. Það er rosalega erfitt að opna það og sjá þar 21 milljarð og spyrja: Í hvað er hann að fara? Hef ekki hugmynd. Ætlið þið að bæta við milljarði? Í hvað fer hann? Ekki hugmynd heldur. Af hverju eruð þið þá að bæta honum við?

Ég er með nokkrar breytingartillögur en þær eru mjög tæknilegs eðlis, hugmyndafræðilegs eðlis að einhverju leyti og spila þannig séð ekki inn á ógagnsæið í frumvarpinu. En hér er um að ræða klassískan kafla í nefndaráliti mínu og það kann að vera eitthvað um endurtekningar frá fyrri árum, enda er nauðsyn til af því að það er ekkert búið að breytast. Til þess að fá heildarsýn yfir þróunina í þessum kafla má skoða fyrri nefndarálit. Allt sem þar er að finna á jafn vel við og nú.

Í lögum um opinber fjárlög er gert ráð fyrir því að rauði þráðurinn í fjárlagaferlinu sé stefnumótun stjórnvalda en þó endar umfjöllun fjárlaga einhvern veginn alltaf á sama stað. Það er að einhverju leyti skiljanlegt vegna þess að það er erfitt að hætta að vera Vogoni, erfitt að breyta hefðum og bregða út af vananum. Stjórnsýslan rembist við að gefa út ýmiss konar mælanleg markmið og máta ný verkefni inn í þau markmið. Ég verð að segja það að eins og á skrifstofu opinberra fjármála eru menn virkilega að reyna og eru að gera góða hluti en það nær ekki að skila sér út í alla stjórnsýsluna og allt ferlið. Þar vil ég kenna þinginu dálítið um. Við í þinginu sinnum okkar hlutverki og aðhaldi ekki nægilega vel, við eigum einfaldlega að krefjast þess að farið sé eftir lögum, það sé krafa um að skila kostnaðar- og ábatagreiningum. Við vitum að þær eru til. Það eru til tölur um kostnaðarmat um öll þessi verkefni, kannski ekki ábatagreining, það þarf að bæta henni við. Hún er ekkert auðveld en að fá hana munar öllu.

Eitt uppáhaldsmarkmið mitt í fjárlagafrumvarpinu er fyrsta markmiðið í málefnasviðinu Lyf og lækningavörur en þar segir: „Bæta aðgang allra landsmanna að nauðsynlegum lyfjum.“ Þetta er frábært markmið. Mælikvarði um hversu vel tekst til að ná því markmiði er „fjöldi markaðssettra lyfja“ annars vegar og „fjöldi lyfjaheita“ hins vegar. Svo í ársskýrslunni, þegar ráðherra kemur og montar sig yfir því hversu vel gengur að ná þessu markmiði, segir hann að fleiri lyfjaheiti hafi verið gefin út en stefnt var að. Frábært. Á sama tíma koma reglulega fréttir af lyfjaskorti. Fullt af lyfjum voru markaðssett, fullt af lyfjaheitum aðgengileg en þau skiluðu sér bara ekki til neytenda. Mælikvarðinn er tvímælalaust rangur um það hvort stefnan skili sér alla leið.

Ég valdi markmið af handahófi, opnaði skjalið og fann næsta markmið sem ég rak augun í og það var „Staða á þróun aðferða til að gera eldisfisk ófrjóan“ — gríðarlega spennandi — sem var með eftirfarandi mælikvarða: „Mælikvarðar í vinnslu“. Annar mælikvarði af handahófi var „Innheimtukostnaður ríkissjóðs“ með mælikvarðann „5% lækkun frá 2019“. Það markmið eitt og sér er alveg frábært, sérstaklega miðað við að staðan 2017 var 560 milljónir, fínt að lækka þann kostnað. En þegar betur er að gáð á að ná markmiðinu um 5% lækkun frá 2019 árið 2019. Það er ekki hægt. Það er sami kostnaður þá. Það er augljóslega stafsetningarvilla þar og á hinum staðnum er mælikvarði í vinnslu, sem er ekki alveg nákvæmt. Ýmislegt þarna sem mætti laga.

Það er ekki hægt að endurtaka þessa vísu of oft, og þá vísa ég aftur í bls. 1: Fyrst setja stjórnvöld stefnu; þá stefnu er aðallega að finna í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar en það eru ýmsar aðrar stefnumótandi ákvarðanir á hverju málefnasviði sem stefnan í stjórnarsáttmálanum nær ekki utan um. Því þarf að tvinna saman stefnu samkvæmt stjórnarsáttmála og stefnu- og áherslumál einstakra málefnasviða því stefnu stjórnvalda samkvæmt stjórnarsáttmála skortir nákvæm markmið. Hvað þýðir t.d., með leyfi forseta: „Ríkisstjórnin ætlar að leggja sérstakra áherslu á listnám og aukna tækniþekkingu“? Þýðir það fjölgun nemenda í listnámi og tæknigreinum? Þýðir það aukið fé til listamanna- og rannsóknarstyrkja? Fleiri umsóknir? Er það nóg? Tíu fleiri nemendur en í fyrra? 10% aukning nemenda? 10 millj. kr. aukalega í styrki? 10% aukning? Allt þetta uppfyllir stefnu stjórnvalda en stendur ekkert endilega undir væntingum þeirra loforða sem voru gefin í stjórnarsáttmálanum. Það eru svona spurningar sem þarf að svara í stefnu stjórnvalda í fjármálaáætlun og svo í fjárlögum, hvernig á að ná þessum markmiðum.

Þegar búið er að ákveða stefnu og mælikvarða er hægt að leggja til aðgerðir sem ná þeim markmiðum. Sumar aðgerðirnar kunna að virðast augljósar. Sem dæmi má taka aukningu fjármagns í rannsóknasjóði – en málið er ekki endilega svo einfalt. Aukum bara fjármagn í rannsóknasjóði, það virðist vera augljóst til að ná því markmiði, setja meira fjármagn þangað, en svo á að sýna fram á árangur af útdeilingu fjárveitinga. Lög um opinber fjármál gera ráð fyrir því að stjórnvöld eigi að sýna fram á þennan vænta árangur en það er lítið gagn í því að veita meira fjármagn eitthvert ef árangurinn minnkar miðað við að gera ekki neitt. Ef það eru allir sem sækja um og allir fá styrki úr rannsóknasjóði þá virkar ekkert endilega að setja meira fjármagn í hann, en ef það er gert og umsóknum fjölgar ekki verður bara fjármagn afgangs, og það er ekki mikið gagn í því, ekki mjög nákvæmt. Annað dæmi er að byggja nýtt hjúkrunarheimili sem tekur við af öðru eldra hjúkrunarheimili en nýja húsnæðið er ekki byggt með hagræði í huga og endar með því að kosta meira í rekstri en fyrra húsnæðið. Það er ekki mjög hagkvæm nýting á fjármunum. Annað dæmi er t.d. að byggja nýjan þjóðarspítala án staðarvalsgreiningar. Núverandi staðsetning hefur verið gagnrýnd af mörgum fyrir óhagkvæmni vegna ýmissa þátta.

Lykilatriðið í markmiða- og mælikvarðasetningu stjórnvalda er því kostnaðar- og ábatagreining. Ég get ekki sagt þetta nægilega oft. Í opinberum fjármálum er það upphaf og endir allrar stefnumótunar stjórnvalda því Alþingi og þjóðin öll á skilið að fjárveitingar og skattheimta skili árangri. Ég geri þó ekki lítið úr því verki sem kostnaðar- og ábatagreining er. Það er langt frá því að vera sjálfsagt og einfalt verk en það er nauðsynlegt verk. Búast má við nokkurri ónákvæmni til að byrja með af því að við erum ekki endilega fullkomlega góð í því frá byrjun. En þessi tækni er til, aðferðirnar eru til. Það er hægt að leita til ýmissa aðila sem geta hjálpað til að gera þetta betur, en við getum einungis orðið betri með því að byrja að gera þetta. Þetta verður bara nákvæmara eftir því sem líður á. Þá fáum við líka umsagnir um þessar kostnaðar- og ábatagreiningar sem geta hjálpað okkur að gera betur. Það hjálpar fjárlaganefnd gríðarlega mikið í sinni vinnu að fá umsagnir um kostnaðargreiningar, hugmyndir um eitthvað annað, hugmyndir um forgangsröðun.

Nú búum við hins vegar við algjöran upplýsingaskort. Það má í raun lýsa núverandi ástandi sem svo að ákvarðanataka sé óupplýst með öllu. Við þreyjum þorrann ár frá ári með því að nota síðasta ár sem viðmið og vonum það besta. Þegar vel árar veldur þetta verklag litlum vandræðum. Þegar illa árar gerir þetta hins vegar allt mjög snúið. Þá er dregið úr fjárfestingum og öðrum verkefnum sem gætu skilað okkur betri árangri inn í framtíðina en önnur verkefni sem ekki er frestað. Ef kostnaðar- og ábatagreiningar lægju fyrir gætum við tekið betri ákvarðanir, sérstaklega þegar harðnar í ári.

Bregðum okkur nú út úr ljóði Jeltz og lítum til framtíðar. Hvernig gæti Ísland litið út ef ekki væri íhaldsstjórn við völd sem gerði lítið annað en það sama og venjulega? Enginn dómur í því. Hvað ef á Íslandi væri ríkisstjórn sem gerði meira en það augljósa, eins og að leggja áherslu á samgöngumál og heilbrigðismál sem er það augljósa og allir voru með fyrir síðustu kosningar? Við gætum öðlast nýja stjórnarskrá með frumkvæðisrétti kjósenda, auðlindaákvæði, jöfnu atkvæðavægi, persónukjöri, skýrari ramma um framkvæmdarvaldið, sannleiksskyldu og ábyrgð ráðherra og meiri og betri borgararéttindum. Það væri farið ofan í kjölinn á hvers kyns spillingu og samtryggingin yrði dæmi um skammarlega fortíð.

Í framtíðinni búum við í velsældarsamfélagi þar sem mannleg reisn verður tryggð með grunnframfærslu og virku lýðræði. Loftslagsvandinn heyrir sögunni til eins og gatið á ósonlaginu af því að við brugðumst við í tæka tíð og fórum að hugsa lengra fram í tímann. Við leggjum grundvöllinn að heilbrigðu og menntuðu samfélagi með áherslu á nýsköpun með sveigjanlegu menntakerfi þar sem verklegt nám og bóknám samtvinnast mun meira. Heilbrigðiskerfið er ekki lengur fjarlægur möguleiki með löngum biðlistum heldur aðgengilegt í gegnum fjarheilbrigðisþjónustu og með góðri þjónustu í nærsamfélaginu. Eldri borgurum er boðið upp á sveigjanlegri starfslok og þátttöku í nýsköpunarsamfélaginu þar sem reynsla þeirra nýtist vel. Fötlun verður ekki samfélagsleg hindrun þar sem samningur um réttindi fatlaðs fólks verður virtur að fullu og sá mannauður sem býr í hverjum einstaklingi fær að njóta sín á þeirra eigin forsendum. Við hættum að láta ungt fólk hefja lífið með skuldabagga námslána á bakinu og það hefur rödd sem fær að hljóma hvarvetna í samfélaginu. Við búum í samfélagi fjölbreyttra tækifæra, samfélagi sem kann að taka á móti fólki og kann að ræða vandamál á opinn og sanngjarnan hátt, samfélagi sem byggist á borgararéttindum, lýðræði, ábyrgð, gagnsæi og friðhelgi.

Tækifærin liggja fyrir framan okkur, við þurfum bara að velja að ganga fram á við og hætta að hringsóla um úrelta fortíð. Það þarf að stíga ábyrgðarskref til þess að fortíðin hangi ekki um háls okkur eins og akkeri. Við þurfum að gera upp við okkur hvers konar uppgjör við þurfum við hrunið, við nýfrjálshyggjuna, við landsréttarmálið og samtrygginguna. Við þurfum að klára það uppgjör áður en haldið er áfram vegna þess að óuppgerð fortíð kemur alltaf eins og draugur í bakið á okkur seinna.

Mig langar til að tala aðeins um velsældarhagkerfið sem hefur aðeins komið upp á undanförnum mánuðum. Hagkerfi þar sem alltaf er gert ráð fyrir vexti gerir ráð fyrir óendanlega stóru hagkerfi að lokum. Vöxtur ofan á vöxt er veldisvöxtur sem stækkar alltaf hraðar og hraðar og meira og meira eftir því sem hann varir lengur og vex þannig út í hið óendanlega. Óendanleikinn er ekki eðlislægt hugtak fyrir okkur. Tengsl óendanleika og hagkerfis er svo enn flóknara fyrirbæri því þegar allt kemur til alls þá eru hagkerfi nátengd samfélögum manna. Það er augljóst að hagkerfið er nokkurs konar margfeldi ofan á mannfjölda. Mest af hagvexti á undanförnum árum og áratugum er í raun bara mannfjöldaþróun ef myndin er dregin mjög gróflega upp. Í einfaldri mynd hagkerfis annaðhvort stækkar hagkerfið í margfeldi af fjölda fólks eða með því að fjölga fólki. Samhengi óendanleika og hagkerfis takmarkast því, í sinni einföldustu mynd, af þessum tveimur stærðum. Þar sem við gerum að sjálfsögðu ekki ráð fyrir óendanlegum mannfjölda, nema við getum numið land á öðrum plánetum, takmarkast möguleikinn á óendanlegu hagkerfi á margfeldisbreytunni. Það er erfitt að sjá hvernig margfeldisbreytan getur staðið undir óendanleikanum þar sem góður hluti af þeirri breytu úreldist reglulega. Við sjáum þetta skýrt í sjálfvirknivæðingunni. Við treystum ekki lengur á munka til þess að skrifa bækur út af prentvélinni. Munkar duttu því út úr hagkerfinu fyrir nokkrum hundruðum ára en prentvélin kom í staðinn. Tækniþróun síðan þá hefur gert okkur kleift að búa til óendanlega mörg eintök af hverri bók en það er ekki óendanlegur tími eða fjöldi fólks til þess að gefa óendanlegum fjölda bóka eitthvert virði, og því telur það ekki, ekki sem óendanleiki, það virkar ekki, það er takmörkun á því. Það er takmörkun á óendanleika margfeldisbreytunnar.

Það er hins vegar ýmislegt sem er óendanlega mikils virði. Það eru lífsgæði okkar og réttindi. Réttindi eins og fram koma í greinum mannréttindakafla frumvarps stjórnlagaráðs; jafnræði, réttur til lífs, mannleg reisn, vernd réttinda, mannhelgi, friðhelgi einkalífs, réttur barna, eignarréttur, skoðana- og tjáningarfrelsi, upplýsingaréttur, frelsi fjölmiðla, frelsi menningar og mennta, trúfrelsi, kirkjuskipan, félagafrelsi, fundafrelsi, félagsleg réttindi, heilbrigðisþjónusta, menntun, atvinnufrelsi, dvalarréttur og ferðafrelsi, frelsissvipting, réttlát málsmeðferð, bann við ómannúðlegri meðferð, bann við afturvirkni refsinga og bann við herskyldu. Lífsgæði sem við mælum í flatskjám, rafbílum, þjónustu og auði eru ekki óendanlega mikils virði eins og friður, heilsa, öryggi og sjálfstæði. Það er þaðan sem hugmyndin um velsældarhagkerfi kemur, að sú mælieining um verga landsframleiðslu sem við höfum notað í langan tíma sé úrelt. Að hugmyndafræðin um stærri verga landsframleiðsluköku sé í raun lygi sem skammtar molum í vasa flestra en sneiðum á aflandsreikninga hinna. Þegar við hendum þeirri hugmynd í ruslið og förum að miða velgengni okkar við það sem gerir líf okkar betra fáum við líka stjórnvöld sem setja frið, heilsu, öryggi og þess háttar sem stefnu sína. Þá fáum við fjárlög sem hafa velsældarmarkmið í stað kökumarkmiða. Uppskrift fjárlaga verður með áherslu á bein lífsgæði, ekki óbeinar lífsgæðaafleiðingar þess að stækka köku aflandsprinsanna og vonast eftir að einhver mylsnukenning virki.

Hér erum við aftur komin inn í heim Vogona. Gerið viðeigandi ráðstafanir. Rétt áður en fjárlaganefnd afgreiddi fjárlagafrumvarpið til 2. umr. bárust gögn frá fjármálaráðuneytinu þar sem fjárheimildir undanfarinna ára eru bornar saman ef launa- og verðlagsþróun væri bætt við fyrri fjárlagafrumvörp. Yfirleitt er það þannig að gamlar tölur fjárlagafrumvarpa eru bara verðlagsuppfærðar en launaliðurinn er oft mun stærri þannig að það er vanáætlun þar í gangi. Það er mjög áhugaverð tafla sem við fengum og hana er að finna í nefndarálitinu. Ég ætla ekki að fara neitt ofurnákvæmlega í hana, þetta eru fullt af tölum. Þar eru feitletraðar tölur sem sýna ef um lækkun framlaga er að ræða frá fjárlögum 2019 til 2020. Ekki að það skipti nokkru máli, þetta er svo rosalega ógagnsætt og maður veit ekkert hvað það þýðir, hvort sem verið er að lækka eða hækka.

Það væri hins vegar mjög áhugavert að fá sundurliðun á launa- og verðlagsbreytingunum eftir því hversu mikið af breytingunum er bara verðlagshækkun og hversu mikið er launaliður. Ég hvet ráðuneytið til að koma endilega með þær tölur sundurliðaðar næst. Nú þarf ég að forgangsraða tímanum og ég skelli mér í kirkjujarðasamkomulagið. Tilbúin?

Árið 1907 voru sett lög um laun sóknarpresta og sölu kirkjujarða. Með því fyrirkomulagi sem þá var sett upp átti arður af kirkjujörðum að standa undir launum presta. Sú áætlun stóðst hins vegar alls ekki og hefur lengst af verið ágreiningur um hvernig haga skuli uppgjöri á þeirri eignatilfærslu sem sagt er að hafi átt sér stað árið 1907. Það má hins vegar deila um hvort eiginleg eignatilfærsla hafi átt sér stað því eignirnar voru eyrnamerktar launum presta hvort eð er þannig að það kom ekkert þannig séð inn í ríkissjóð og svo er samband ríkis og kirkju alls konar. Það virðist þó hafa verið markmiðið því að í kirkjujarðasamkomulaginu sem var gert á árunum 1997 og 1998 kemur þetta fram: „Aðilar líta á samkomulag þetta um eignaafhendingu og skuldbindingu sem fullnaðaruppgjör þeirra vegna þeirra verðmæta sem ríkissjóður tók við árið 1907.“ Í svari við fyrirspurn Ólafs Hannibalssonar á 123. löggjafarþingi kemur fram að samningur um kirkjujarðasamkomulagið sé „ótímabundinn og verði heildarskuldbindingin ekki færð til gjalda í ríkisreikningi og fjárlögum heldur einungis árlegt framlag“. Þetta er mjög áhugavert og ég tel þetta ekki standast stjórnarskrá. Í kirkjujarðasamkomulaginu er gert ráð fyrir því að ríkið greiði laun biskups og vígslubiskupa, 138 starfandi presta og prófasta og 18 starfsmanna biskupsembættisins. Einnig var gert ráð fyrir því að launagreiðslur lækkuðu ef það fækkaði í þjóðkirkjunni og hækkuðu ef það fjölgaði. Nú þegar skráningum fer ört fækkandi, mjög ört, er gerð ný útfærsla á kirkjujarðasamkomulaginu þar sem þetta skilyrði er fjarlægt. Ég myndi telja það dálítið alvarlegt.

Það er mjög margt athugunarvert við þetta samkomulag. Til að byrja með, ef þetta er eignaafhending, eins og gert er ráð fyrir, þá er mjög undarlegt að ekki sé hægt að fá svör við því hvaða eignir voru afhentar því augljóslega er um afhendingu á endanlegum gæðum þar að ræða. Árið 1992 skilaði kirkjueignanefnd af sér skýrslu, viðhengi er með því í nefndaráliti, rúmlega 300 bls., þar sem farið hafði verið yfir eignaskrár og afsöl alveg aftur til ársins 1597. Það var gert til þess að komast að því hvaða jarðir væru sannanlega í eigu kirkjunnar, kirkjunnar sem er A-hluta stofnun ríkisins, til að hafa það á hreinu. Sú skýrsla inniheldur mjög nákvæman lista ásamt verðmætamati á eignum kirkjunnar; sú upphæð var rúmur milljarður króna á þeim tíma. Á verðlagi 2018 væri sú upphæð rúmlega 3 milljarðar kr. en á sama tíma hafa verið greiddir rúmlega 42 milljarðar kr. vegna kirkjujarðasamkomulagsins.

Kirkjujarðasamkomulagið snýst um tvennt. Annars vegar að uppfylla skilyrði stjórnarskrár lýðveldisins Íslands um að styðja og vernda þjóðkirkjuna og hins vegar um eignatilfærslu. Samtímis verður að horfa til þess sambands ríkis og kirkju sem er í A-hluta stofnana ríkisins, en það verður að teljast mjög undarlegt að stofnun í A-hluta sé með sérstakan samning sem byggist á einkaeignarrétti við ríkið sem er í öllum skilningi A-hluta stofnana eigandi kirkjunnar. Ríkið er þannig með einkaréttarlegan samning við sjálft sig í gegnum þjóðkirkjuna ef horft er á málið út frá stofnanalegu sjónarhorni. Þegar allt kemur til alls, hins vegar, og málið er metið út frá lögum og stöðu ríkis og kirkju verður að klára að gera upp eignatilfærsluna, þ.e. að færa eignirnar úr einum vasa ríkisins yfir í annan vasa.

Bestu heimildir sem til eru um hvaða eignir kirkjujarðasamkomulagið snýst um er að finna í álitsgerð kirkjueignanefndar frá 1984, einnig í viðhengi, og skýrslu kirkjueignanefndar frá 1992, þar er farið yfir forsendurnar í skýrslunni frá 1984 og listinn sjálfur birtist í skýrslunni frá 1992. Miðað við það verður að gera ráð fyrir því að kirkjujarðirnar sem lágu undir í því samkomulagi sem var gert 1997 séu þær sem voru í skýrslunni frá 1992. Það hlýtur því að vera á ábyrgð fjármála- og efnahagsráðuneytisins að stemma af þær eignir sem voru afhentar gagnvart þeim skuldbindingum sem á þeim lágu og Ríkisendurskoðunar að kvitta upp á þá afstemmingu. Svarið um það hvort enn er skuldbinding á þeim jörðum ætti að vera til í eignaskrá ríkisins og nýlegum stofnefnahagsreikningi. Svör hafa þó ekki enn fengist um hvaða skuldbindingar hvíla á þeim jörðum sem um ræðir en það er ágiskun mín að engar skuldbindingar séu skráðar og því eigi ríkið viðkomandi jarðir skuldlaust. Það verður áhugavert að sjá hvernig það fer.

Það samkomulag sem var gert árið 1997 var með endurskoðunarákvæði. 15 árum seinna hefði átt að fylgja því eftir með uppfærðu mati á skuldbindingum ríkisins gagnvart kirkjunni, miðað við hversu mikið hefði verið greitt af eignatilfærslunni. Það hlýtur að teljast ámælisvert að ríkið hafi ekki sinnt sínu hlutverki og gætt að notkun á almannafé hvað þetta varðar. Það viðbótarsamkomulag sem gert var 6. september sl. er einnig með 15 ára endurskoðunarákvæði en síðan kirkjujarðasamkomulagið var gert árið 1997 þá hafa ný lög um opinber fjármál verið sett. Lög um opinber fjármál gera ekki ráð fyrir lengri samningstíma en fimm árum nema í mjög sérstökum undantekningartilvikum. Það er ekki einu sinni reynt að gera grein fyrir því hvernig viðbótarsamkomulagið uppfyllir undantekningartilvikin né heldur hvernig eigi að fylgja eftir ákveðnum öðrum skilyrðum sem gerð eru í lögum um opinber fjármál, eins og um eftirlit, eins og þau koma fram í 40. gr. laganna.

Það er augljóst, ef borin eru saman skilyrði laganna og efnisatriði viðbótarsamkomulagsins, að ýmis atriði standast ekki lög. Það væri því að mati 3. minni hluta mjög ábyrgðarlaust af Alþingi að samþykkja þær fjárveitingar sem lagðar eru til vegna þessa samnings. Alþingi hefur, þegar allt kemur til alls, fjárveitingavaldið. Alþingi á að hafna þessum samningi og rifta núverandi kirkjujarðasamkomulagi og ganga svo til samninga um uppgjör á eignum sem ég tel vera fulluppgert, þannig að það ætti að vera fljótgert. Alþingi ákveður annars hvað telst vera nægilegt til þess að uppfylla stjórnarskrárákvæði um þjóðkirkjuna. Ef samningar nást ekki verður málið að fara fyrir dóm þar sem aðilar leggja öll gögn á borðið. Niðurstaðan af slíku máli yrði aldrei kostnaðarsamari en núverandi fyrirkomulag sem ég tel ganga gegn lögum um opinber fjármál og 41. gr. stjórnarskrárinnar um að ekkert gjald megi greiða nema heimild sé fyrir því í fjárlögum eða fjáraukalögum. Það gengur einfaldlega gegn stjórnarskránni að skuldbinda ríkið um ókomna framtíð á þann hátt sem gert er í kirkjujarðasamkomulaginu. Ég fullyrði það. Ég tel einmitt gríðarlega mikilvægt að sjá þetta í þessu samhengi. Við erum að greiða þessa upphæð miðað við þær forsendur sem sagt er að séu fyrir fyrirkomulaginu núna, að það sé ekki með neina lokadagsetningu heldur bara til eilífðar. Sú upphæð yrði aldrei hærri þó að málið tapaðist fyrir dómi. Aldrei. Það er bara ómögulegt.

Þá um afgreiðslu fjárlaganefndar. Það má breyta mörgu í afgreiðslu fjárlaganefndar á frumvarpi til fjárlaga. Hefðin er að fá frumvarpið eftir 1. umr., kalla eftir umsögnum, raða inn gestum á fundi fjárlaganefndar og skila svo nefndaráliti fyrir ákveðna dagsetningu, óháð því hvort afgreiðslu er lokið eða ekki. Áður var það kannski frekar nauðsynleg dagsetning sem rak vinnu fjárlaganefndar áfram því að klára þurfti fjárlög fyrir áramót. Nú er það hins vegar 11. nóvember. Ég gagnrýni ekki endilega að fjárlaganefnd klári afgreiðslu málsins almennt fyrir þessa dagsetningu eða í kringum hana en ég gagnrýni að málið hafi verið tekið úr nefnd því að umfjöllun nefndarinnar var hvergi nærri lokið eins og ég rakti áðan. Fullt af nýjum gögnum voru nýbúin að berast nefndinni og enginn tími var gefinn til þess að fá athugasemdir um þau gögn, hvort þau stæðust eða ekki, hvaða áhrif þau hefðu eða annað

Breytingartillögur komu frá ríkisstjórninni í kjölfar breytinga á þjóðhagsspá. Þær breytingar komu fram með svo skömmum fyrirvara að enginn tími gafst til þess að fá athugasemdir. Ég tel það mjög gagnrýnisvert hversu miklum fundartíma er eytt í gestakomur á kostnað greiningarvinnu innan nefndar þó að gestakomur séu mun umfangsminni en á árum áður. Það er búið að breyta lögunum, ekki sömu forsendur í þessari vinnu, og með breyttum lögum ætti að breyta vinnu nefndarinnar líka. Það færi betur með tíma nefndarinnar ef meiri tími væri gefinn fyrir greiningarvinnu og samskipti við ráðuneyti um efni umsagna og álitaefna, eins og hv. formaður kom inn á framsöguræðu sinni. Í stað þess að fá umsagnaraðila á fund nefndarinnar væri t.d. skilvirkara að biðja um viðbótarumsögn um atriði sem nefndarmenn hafa spurningar um áður en ákveðið er hvort tilefni sé til gestakomu. Það er ákveðin hefð fyrir gestakomum og þær eru vissulega verðmætar fyrir vinnu nefndarinnar og ég hef mikinn skilning á mikilvægi þess að umsagnaraðilar geti lesið yfir hausamótunum á nefndarmönnum en ef Alþingi á að geta tekið upplýsta ákvörðun, um þær fjárheimildir sem lagðar eru til í frumvarpi til fjárlaga, þarf fjárlaganefnd að spyrja annarra spurninga en gert var samkvæmt gömlum lögum um fjárreiður ríkisins. Lög um opinber fjármál krefjast annars konar vinnulags af hálfu nefndarinnar ef ná á markmiðum laganna. Eins og er getur fjárlaganefnd einfaldlega komið saman þegar nýjar tillögur ríkisstjórnarinnar koma fram eftir þjóðhagsspá í nóvember og afgreitt frumvarp til fjárlaga til 2. umr. Fundir fjárlaganefndar fram að því eru tiltölulega gagnslausir. Ég hef meira að segja viðrað þá skoðun á vettvangi fjárlaganefndar að fjárlaganefnd verði einfaldlega lögð af og fjárlagavinnan fari fram í fagnefndum, þar sem væri kannski meiri tenging við eiginlega notkun fjárheimilda í þeim verkefnum sem fagráðuneytin stýra.

Skiptum aðeins um gír, förum í umhverfismál, mál málanna. Þá meina ég það eins innilega og ég get, engin kaldhæðni þar, alls engin. Umhverfismál eru mál málanna þessa dagana en sitt sýnist hverjum um hvort og hvernig eigi að glíma við þau. Við stöndum frammi fyrir nokkrum staðreyndum miðað við bestu vísindi sem við höfum aðgang að. Aukningin á magni kolefnis í andrúmsloftinu er af mannavöldum og hlýnunin sem því fylgir líka. Alþjóðasamfélagið er búið að sættast við 1,5–2°C hækkun á meðalhita. Sú hlýnun á eftir að hafa nokkur áhrif, en það er ekkert sem við getum ekki brugðist við, það eru taldar ásættanlegar breytingar sem þarf vissulega að bregðast við á einhvern hátt. Það verða breytingar þó að við náum að halda okkur innan þessarar hlýnunar. Við erum ekki komin þangað enn þá. Við erum strax farin að sjá teikn og vísbendingar um þessar breytingar. Þegar við nálgumst mörkin enn meira kveikir það vonandi á perum hjá fleira fólki og við bregðumst þá vonandi betur við.

Vandamálið sem við stöndum frammi fyrir er að án aðgerða mun hlýnunin verða meiri og afleiðingarnar þeim mun víðtækari og dýrari og þegar við verðum komin fram yfir þau viðmið sem er búið að sættast á verða afleiðingarnar tvímælalaust hamfarir. Sú aðlögun og þær breytingar sem við munum þurfa að gera, ef við förum yfir þau viðmið sem búið er að sættast á, verða gríðarlega kostnaðarsamar. Mögulegar breytingar eru t.d. súrnun sjávar og breytingar á gróðurfari og það hefur áhrif á fiskstofna, hvar landbúnaður er stundaður og hvernig, gróðurbelti færast til og það hefur gríðarleg áhrif á uppbyggingu landbúnaðar því að við þurfum mat, það er ekki flóknara en það. Hlýrri sjór og hærri sjávarstaða hefur áhrif á afl og áhrif storma. Ég fór yfir það fyrir nokkrum dögum hvaða áhrif flóð í Norður-Karólínu og New Orleans höfðu, 125 milljón dollarar, gríðarlegur skaði. Flóð verða einfaldlega algengari um allan heim ef sjávarstaða hækkar og sjór hlýnar. Hamfarirnar voru þarna eitt tilvik, tvímælalaust hamfarir. Ef maður margfaldar þetta fimmfalt, tífalt, yfir alla jörðina og það sem gerist á 10 ára fresti fer að gerast einu sinni á ári, hvað eru það annað en hamfarir?

Ýmsir hafna því að breytingarnar séu af mannavöldum. Ýmsir hafna afleiðingunum. Ýmsir gagnrýna viðbrögð stjórnvalda vegna þessara mála. Efasemdir eru góðra gjalda verðar en ég hef orðið var við að umræðan er oft á ákveðnum villigötum því að þótt finna megi dæmi um afleiðingar hlýnunar í dag eru þær enn innan ákveðinnar hitasveiflu sem getur gerst náttúrulega. Í þeirri umræðu gleymist að markmiðið er að koma í veg fyrir að hlýnunin fari yfir þá sveiflu, yfir 2°C, því að afleiðingarnar af því eru það sem málið snýst um. Þá kemur að viðbrögðum stjórnvalda við þessu máli málanna í dag, máli sem er ekkert endilega aðkallandi fyrir daginn í dag, en viðbragðsleysi mun vissulega hafa áhrif á framtíðardaga. Við höfum það sem betur fer mjög gott á Íslandi hvað þessi mál varðar. Afleiðingarnar verða væntanlega vægar, ég er að reyna að vera bjartsýnn, og munu líklega ná yfir töluvert tímabil þannig að aðlögunin verður vonandi einföld. Ytri aðstæður gætu hins vegar orðið erfiðar ef spár um t.d. loftslagsflóttamenn ganga eftir. Þó að Ísland sé eyja er Ísland ekki eyland í heimsmálum. Óbein áhrif loftslagsbreytinga verða líklega mun meiri en bein áhrif þeirra hér á landi. Það er á þeim nótum sem við tökum þátt í alþjóðasamningum um loftslagsmál og göngumst undir skuldbindingar þess vegna. Á þann hátt hafa viðbrögð stjórnvalda í loftslagsmálum verið jákvæð en það sem vantar upp á eru skilvirk og skiljanleg viðbrögð innan lands.

Hér er hlaupið í kolefnisgjald, lagt til urðunargjald, ákveðið að moka ofan í skurði og ýmislegt annað án þess að það liggi skilmerkilega fyrir hvaða árangri það muni skila okkur gagnvart skuldbindingum okkar. Á meðan við vitum ekkert annað er um að gera að ráðast í þessi verkefni en við erum ekki að vinna þau samkvæmt formúlunni. Stjórnvöld setja fram áætlun sem er ekki árangursmetin, ekki kostnaðarmetin og byrja að framkvæma samkvæmt þeirri áætlun af handahófi með tilliti til fjárveitinganna sem eru lagðar fram á Alþingi. Þegar ég legg fram pening í þessa loftslagsáætlun veit ég ekki hvaða verkefni er næst. Þess vegna er það af handahófi eins og ég sé það. Það kemur ekki fram í fjármálaáætlun eða í fjárlagafrumvarpi hver forgangsröðun þessara verkefna er. Það kemur ekki fram í loftslagsáætlun heldur. Þess vegna er það frá mínum bæjardyrum séð handahófskennt hvaða verkefni kemur næst, af því að ég sá að hv. þingmaður hristi hausinn hér úti í sal. Á meðan það er vissulega ekki hægt að segja að við séum að gera nóg til þess að standast alþjóðlegar skuldbindingar okkar er samt ekki hægt að sætta sig við að farið sé með fjárveitingar á svona handahófskenndan hátt. Alþingi á að vita hver sé væntur árangur af veitingu fjárheimilda áður en heimildin er samþykkt. Það er eina leiðin til þess að hægt sé að fylgjast með framkvæmd fjárlaga og meta hvort fjármagni er betur varið í önnur skilvirkari verkefni. Hversu miklum árangri myndum við t.d. ná með því að veita fjármagn í rannsóknir á kjötrækt eða kjarnasamruna í staðinn fyrir að moka í skurði? Engin greining á því. Það eru nefnilega gríðarlega spennandi möguleikar á sjóndeildarhringnum. Því fyrr sem við náum að raungera þá möguleika, því fyrr útrýmum við loftslagsvandanum. Það er aldrei lausn að gera ekki neitt en við hljótum að vilja ná sem mestum árangri sem fyrst. Það verður einungis hægt ef við fylgjum þeirri forskrift sem er sett upp með lögum um opinber fjármál, að aðgerðir séu metnar að umfangi og árangri. Hér sem og í öllum öðrum opinberum verkefnum verður fagleg greining á umfangi að liggja fyrir áður en við tökum ákvörðun um aðgerðir. Það er einfaldlega þannig.

Ég legg til nokkrar breytingartillögur við frumvarpið, eins og ég nefndi áðan. Til að byrja með eru öll útgjöld sem tengjast kirkjunni og lífsskoðunarfélögum lögð niður. (Gripið fram í: Ha?) Burt með þau. Sóknargjöld, kirkjujarðasamkomulagið, allt. Lífsskoðunarfélög geta einfaldlega innheimt sín eigin félagsgjöld. Eins og Bændasamtökin gerðu hérna áður, því var nýlega breytt. Mjög góð fyrirmynd. Gerum það bara aftur, mjög sniðugt. Við höfum gert það áður, gerum það aftur. Það eina sem stendur eftir í þeim málaflokki hins vegar sem ég skil eftir er biskupsembættið sem ég lít á sem uppfyllingu á 62. gr. stjórnarskrárinnar um að vernda og styðja þjóðkirkjuna. Mig minnir að það séu 266 milljónir í heildina, þ.e. biskup og 18 starfsmenn og eitthvað svoleiðis. Á móti niðurfellingu sóknargjalda er hins vegar persónuafsláttur hækkaður um sömu upphæð og gert er ráð fyrir í lögum um sóknargjöld eða um tæplega 1.000 kr. á mánuði.

Ég legg líka til að ónýttur persónuafsláttur verði greiddur út óháð tekjum. Það einfaldar allt fyrirkomulag varðandi samsköttun og skattkort og þessi aðgerð gagnast mjög ungu fólki sem er yfirleitt ekki með tekjur til að fullnýta persónuafslátt. Það gæti verið mjög hvetjandi til þess að stunda ekki vinnu með námi, gerir námið mun skilvirkara og ódýrara og þar fram eftir götunum, fyrir alla þessa þjóðarframleiðslu sem sumir vilja endilega telja. Það minnkar þörfina á námslánum. Áætlaður kostnaður við þetta er um 10,5 milljarðar, eins og kemur fram í svari fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn minni á 148. löggjafarþingi.

Ég legg einnig til að umboðsmaður Alþingis fái 30 millj. kr. fjárheimild fyrir tvö stöðugildi til að sinna frumkvæðisrannsóknum. Það er tilfinnanlegur skortur þar á. Einnig legg ég til 550 milljónir í Rannsóknarsjóð og 550 milljónir í Tækniþróunarsjóð til að ná hærra úthlutunarhlutfalli úr þeim sjóðum. Það er skammarlega lágt eins og er og við erum einfaldlega að glata nýsköpunartækifærum af því að við erum að snuða á þessum vettvangi. Þá er hentugt að benda á þessar rétt rúmlega 700 milljónir sem hurfu úr nýsköpuninni vegna einhverrar reiknivillu, voru ekki settar í það sem þær áttu að fara af því að það var eitthvað vitlaust reiknað. Í staðinn fyrir að láta þær í aðra nýsköpun, þá bara hurfu þær. Fáránlegt.

Ég geri einnig ráð fyrir því að engin veiðigjöld fáist fyrir veiðar á langreyði þar sem ég legg til að hækka veiðigjöld fyrir langreyði í 1 milljarð kr. Ég stakk upp á einni billjón fyrst en fékk athugasemd frá nefndasviði sem sagði að sú tala passaði ekki inn í reitinn. Það varð að vera 1 milljarður.

Að lokum legg ég til 7,4 milljarða til að afnema með öllu krónu á móti aura skerðingu af tekjum lífeyrisþega örorku. Ekki lítið en er algert grundvallaratriði hvað sanngirni varðar, eins og í öllum þessum breytingartillögum.

Rétt í lokin. Vogonar, en ljóðið í upphafi var um Vogona, eru dæmi um ákveðna martraðarstjórnsýslu þar sem hefðin ræður för og engu er breytt. Það er bara bætt við meiri pappírsvinnu. Þar er fjárlagavinnan stödd í dag, alveg nákvæmlega eins og áður nema bara meiri pappírsvinna og ekkert annað hreyfist. Við erum með ný lög um opinber fjármál. Ef farið væri eftir þeim værum við ekki lengur Vogonar. Við þurfum að brjótast út úr gömlu hefðunum sem byggðu á öðru umhverfi og taka upp þessa fínu tillögu sem er í lögum um opinber fjármál um það hvernig við getum gert betur til framtíðar. Við þurfum einfaldlega að hætta að vera Vogonar, hætta að vera Bjartur í Sumarhúsum. Ég áttaði mig á því, þegar ég var að skoða þetta samhengi, að Bjartur í Sumarhúsum er Vogoni okkar Íslendinga. Hann vildi engar breytingar, vildi bara vera með sínar kindur á sínu koti og eyðilagði allt í kringum sig í þeirri þrjósku. Þar tel ég fjárlagavinnuna vera stadda eins og er. Mig langar gríðarlega mikið til þess að losna úr því.