150. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[18:48]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skil það mjög vel að hv. þingmaður skilji þetta ekki því að við stundum einfaldlega öðruvísi pólitík. Sjálfstæðismenn virðast ekki enn þá vera farnir að átta sig á kalli tímans hvað það varðar. Píratar leggja stund á fagmennsku, svo einfalt er það. Hvað hagfræðistefnuna varðar get ég tekið undir að það er ýmislegt verið að gera í rétta átt í fjárlögunum eins og er. Það er reynt að fara í hvetjandi aðgerðir gagnvart hagkerfinu. Ég ætla ekkert að mótmæla almennu stefnunni. Það eru áhersluatriði sem hægt að fara út í og smáatriði sem hægt er gera öðruvísi o.s.frv., allt í lagi að deila um það, en almennt séð hef ég ekkert sérstaklega mikið við það að athuga og sérstaklega af því að fjárlögin eru ógagnsæ. Þá get ég ekki grafið mig niður á ábatagreininguna og sagt: Hérna er verið að velja verkefni sem er bara gríðarlega óhagkvæmt að fara út í núna.

Þess vegna get ég gagnrýnt að það sé verið að skera niður um 3,5 milljarða í byggingu nýs Landspítala því að við vitum að sú greining sem liggur þar að baki er með ábatagreiningu fyrir Landspítalann. Ábatinn væri miklu meiri ef spítalinn væri annars staðar því að staðsetning sjálf er óhagkvæm, þannig að ég get gagnrýnt það. Þar er ákveðið gagnsæi til staðar og þá er hægt að gagnrýna nákvæmar og þannig pólitík vil ég stunda. Ég vil ekki stunda pólitík þar sem ég þarf að giska á tölur fram og til baka.

Ég skil vel að hv. þingmaður upplifi þetta öðruvísi. Ég tel það vera pínulítið merki um ákveðinn samdaun, ég ætla að nota það orð, við fyrri fjárlög, fjárreiðulög og hefðina við að stunda fjárlagavinnu. Hún hefur vissulega breyst aðeins (Forseti hringir.) en í öllum aðalatriðum er hún í rauninni nákvæmlega eins.