Bráðabirgðaútgáfa.

150. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[20:52]
Horfa

Frsm. 4. minni hluta fjárln. (Inga Sæland) (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Ég verð að viðurkenna, ef við byrjum á niðurlaginu í fyrirspurn hv. þingmanns, að ég veit ekkert um hvað hún er að tala. Það er hreinlega verið að tala um staðgreiðslu þarna. Ef teknar eru af þér 100.000 kr. í lífeyrissjóð borgar þú bara staðgreiðsluna þegar það er tekið af þér, hvort sem þú ert með 200.000 kr. í tekjur eða 20 milljónir, staðgreiðslan er tekin þarna. Ástæðan fyrir því að við förum þá leið er einföld. Ég hef t.d. ekki enn fengið svar við því hvað það eru margir sem hafa dáið áður en kemur að lífeyristökualdri. Hvað er í rauninni búið að gera í sambandi við fjárfestingar og alla þá sjóði sem við erum að safna í í lífeyrissjóðakerfinu? Hvernig getum við nýtt þá best? Hvernig getum við nýtt sjóðina best fyrir þá sem eiga þá, fyrir fólkið í landinu? Þarna getum við náð í um 70 milljarða við staðgreiðslu við innborgun í lífeyrissjóðina. Við myndum kannski getað sleppt því að setja á vegskatt og allt saman.

Mér þykir ástæða til þess að ríkisvaldið geri eins og ég hef lagt til, leggi almenna könnun fyrir þá sem eiga sjóðina og spyrji hvort þeir vilji reyna koma til móts við að draga úr skerðingum, hvort þeir vilji koma í veg fyrir að fá alls konar aukaskatta og alls konar aukaálögur, hvort þeir vilji koma í veg fyrir að tapa eins og 600 milljörðum af lífeyriseignum sínum, líkt og í hruninu, vegna áhættufjárfestinga. Það er ástæða til að skoða þetta og gera það virkilega vel. Flokkur hv. þingmanns talar t.d. um einhver græn bréf, græn skuldabréf. Eiga lífeyrisþegar, þeir sem eiga í lífeyrissjóði núna að fara að bjarga loftslagsmálunum? Það sem þau segja hjá ASÍ mætti rökstyðja pínulítið betur.