150. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[20:58]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Hér hefur margt verið rætt um fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar við 2. umr., margt athyglisvert hefur í sjálfu sér komið fram og svo sem margt í þessari umræðu verið ákveðið kapphlaup um hvar megi bæta enn frekar í útgjöld hins opinbera. Það sem mér finnst hins vegar standa upp úr í þessari umræðu er það sem ég vil kalla rökleysur eða villandi framsetningu ríkisstjórnarinnar á fjárlagafrumvarpinu þar sem ríkisstjórnin stærir sig af ráðdeild eða hagsýni við stjórn opinberra fjármála, af skýrri forgangsröðun og ekki hvað síst því sem talsmönnum ríkisstjórnarinnar hefur orðið tíðrætt um, og ég verð eiginlega að segja að sé það fyndnasta í þessari umræðu, að við núverandi kringumstæður fari ríkisfjármálin einstaklega vel saman við peningastjórn. Mig langar að fara aðeins betur ofan í þetta.

Hér er verið að slá met í útgjaldaaukningu hins opinbera. Hér er í raun og veru verið að gera nákvæmlega sömu mistök og við höfum áður gert á uppgangstímum í efnahagslífinu, ríkisútgjöld eru þanin til hins ýtrasta á grundvelli góðæris í efnahagslífinu, eingöngu til að lenda í vanda þegar undan hallar. Skoðum hvað er að gerast núna. Við ræddum í vikunni frumvarp til fjáraukalaga þar sem verulegur viðsnúningur er að verða á væntri afkomu ríkissjóðs. Gert var ráð fyrir afgangi á rekstri ríkissjóðs á yfirstandandi ári upp á tæpa 30 milljarða, þ.e. 1% af landsframleiðslu, en núna stefnir í halla upp á 15 milljarða, 0,5% af landsframleiðslu. Það er viðsnúningur upp á 1,5% vegna breytinga í efnahagslífinu sem myndu teljast í íslenskri hagsveiflu algjörlega minn háttar, þar sem við fáum eitt ár með óverulegum eða lítillega neikvæðum hagvexti en samkvæmt gildandi hagspám eingöngu til þess að taka aftur á flug nánast um hæl. Það væri gott og blessað að reka ríkissjóð með halla við þær kringumstæður ef við sæjum raunverulega aukningu í fjárfestingum. Staðreyndin er hins vegar sú að þegar við horfum á þriggja ára sögu þessarar ríkisstjórnar, að teknu tilliti til fjárlagafrumvarps fyrir árið 2020 sem við ræðum hér, er verið að auka útgjöld ríkissjóðs frá ríkisreikningi ársins 2017 um tæplega 160 milljarða á föstu verðlagi, að langstærstu leyti í aukin rekstrarútgjöld hins opinbera en að minnstu leyti í auknar fjárfestingar hins opinbera og það þrátt fyrir að hér hafi ítrekað verið talað um verulega uppsafnaða þörf í fjárfestingum í innviðum þar sem slíkar fjárfestingar hafa verið sveltar allar götur frá því fyrir hrun.

Í tengslum við samgönguáætlun sem á að koma öðru sinni til umræðu í þinginu núna í vetur eftir að hafa verið samþykkt til bráðabirgða í vor er rætt um að til þess að fjármagna það átak sem þar er boðað, sérstaklega átak sem tengist samgöngusáttmála á höfuðborgarsvæðinu, þurfi að auka skattheimtu, það þurfi að leggja á notendagjöld til að fjármagna þær nauðsynlegu og löngu tímabæru fjárfestingar. Það er einmitt það sem varað var ítrekað við þegar þessi ríkisstjórn tók við og kynnti fyrstu fjárlög sín og fyrstu fjármálaáætlun, að í hinum efnahagslegu forsendum áætlana ríkisstjórnarinnar um aukin útgjöld væri allt of mikil bjartsýni, ekki væri sýnd nægjanleg ráðdeild, ekki skapað svigrúm fyrir nauðsynlegar skattalækkanir og alls ekki skapað nægjanlegt svigrúm fyrir nauðsynlegar fjárfestingar.

Ríkisstjórnin lét þessi aðvörunarorð sem vind um eyru þjóta en nú er veruleikinn tekinn að blasa við og erfiðleikar fram undan fyrir ríkisstjórnina. Í raun má segja að límið í ríkisstjórnarsamstarfinu hafi verið gegndarlaus útgjaldaaukning en nú reynist öllu erfiðara að fjármagna þá útgjaldaaukningu þar sem einfaldlega er búið að eyða öllu því svigrúmi sem til staðar var. Það er ágætt í þessu samhengi að hafa í huga að tveir af þeim þremur flokkum sem mynda ríkisstjórnina, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, gagnrýndu harðlega í stjórnarandstöðu á árunum 2009–2013 þær miklu skattahækkanir sem þá voru uppi af hálfu hinnar svonefndu vinstri stjórnar. Reyndar bættu þeir sömu flokkar um betur og lögðu tímabundna skatta á fjármálakerfið til að fjármagna endurgreiðslur til heimilanna og eru nú að sanna hið margkveðna, að fátt er eins varanlegt og tímabundnir skattar af hálfu hins opinbera. Hér er verið að festa í sessi með þessari gegndarlausu útgjaldaaukningu á undanförnum þremur árum þær skattahækkanir sem enn standa eftir af skattahækkunum vinstri stjórnarinnar og auknum álögum á bankakerfið af hálfu ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks á árunum 2013–2016.

Í ágætri samantekt Samtaka atvinnulífsins í umsögn um fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar kemur einmitt fram að heimili og atvinnulíf greiða 115 milljörðum meira í opinberar álögur á þessu ári en ef skattstig hefði verið hið sama og var fyrir hrun. Það er reikningurinn sem við fáum á hverju ári næstu ár, það er að verða fyrirsjáanlegt, þar sem ekki hefur verið skapað nauðsynlegt svigrúm til að lækka skatta í því umhverfi sem ekki er hægt að kalla annað en fordæmalausan efnahagsvöxt á undanförnum árum. Við fengum nýja sterka útflutningsatvinnugrein, ferðaþjónustuna, sem skapar hundruð milljarða í tekjur með tilheyrandi tekjuauka fyrir ríkissjóð. Öllu því svigrúmi sem skapast hefur í opinberum fjármálum hefur verið eytt í að belgja út ríkisbáknið á sama tíma. Það er sorglegt að horfa upp á það að nær ekkert af þessu svigrúmi hafi verið nýtt til nauðsynlegra innviðafjárfestinga og nú sé það einmitt boðað sem varað var við í þessum hættulega og baneitraða kokteil, að saman fari gegndarlaus útgjaldaaukning í góðæri sem gæti ekki leitt til annars en skattahækkana þegar fram í sækir. Það sjáum við nú raungerast í samgöngusáttmála sem gerður var fyrir nokkrum vikum. Þeir 115 milljarðar sem atvinnulíf og heimili eru að greiða í viðbótarálögur á ári eru ekki á leiðinni neitt í burtu í tíð þessarar ríkisstjórnar. Hér verður ekkert svigrúm til skattalækkana. Það er verið að fresta áformum um lækkun á bankaskatti, skatti sem er í raun skattur á viðskiptavini bankanna, hvort sem eru innlánseigendur eða skuldarar, því að eins og ítrekað hefur verið bent á leiðir hann einvörðungu til meiri vaxtamunar en ella og þar með hærri vaxta. Þetta eru einfaldlega skattar sem leggjast beint á viðskiptavini bankakerfisins.

Það er auðvitað grundvallarvandinn, þegar við tölum um hlutverk ríkissjóðs í hagstjórn á tímum vonandi skammvinnrar efnahagsniðursveiflu, að ríkissjóður liggur núna eins og mara á efnahagslífinu á sama tíma og hagkerfið þyrfti á súrefni að halda og það er vegna mikillar útgjaldaaukningar sem fyrst og fremst fer í að belgja út báknið og auka fastan rekstrarkostnað hins opinbera. Það væri betur til þess fallið við þessar kringumstæður að ríkissjóður lækkaði skatta, ekki hvað síst bankaskattinn, til að lækka vaxtastigið í landinu enn frekar til að örva fjárfestingu, en að verja fjármagninu í að ráða fleiri starfsmenn til hins opinbera. Þetta er ekki hagstjórn, þetta er einfaldlega gegndarlaus útgjaldaaukning sem er sem fyrr segir límið í þessu ríkisstjórnarsamstarfi sem við erum að greiða reikninginn fyrir núna.

Það leiðir hins vegar hugann að öðru sem er önnur mýta sem þessari ríkisstjórn hefur orðið tíðrætt um, sem er að um skýra forgangsröðun í aukningu ríkisútgjalda sé að ræða. Það sjáum við hvað best í töflu sem er að finna í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar sem lagt var fram fyrir 2. umr. þegar við horfum á útgjaldaaukninguna frá 2017 að telja. Sem fyrr segir er 158 milljarða útgjaldaaukning frá 2017 sem er 19% aukning að raunvirði á þessu tímabili. Á sama tíma horfum við á að sjúkrahúsþjónusta er talsvert undir meðaltali í þessari aukningu. Það er samdráttur í framlögum til háskólastigsins og framhaldsskólastigið er nær óbreytt á sama tíma. Það er engin forgangsröðun í þessari útgjaldaaukningu. Helstu stoðirnar, menntakerfið okkar og velferðarkerfið, fá hlutfallslega umtalsvert minni útgjaldaaukningu en t.d. æðsta stjórnsýsla ríkissjóðs þar sem útgjöld aukast um 48% að raungildi á þessu tímabili og raunar vaxa útgjöld helstu stofnana, Alþingis, dómstóla og utanríkismála, umtalsvert meira en ríkisútgjöld að meðaltali á þessu tímabili. Það endurspeglar enn og aftur að hér er verið að þenja út báknið með fordæmalausum hætti. Hér er ekki um neina forgangsröðun að ræða í þágu velferðarkerfisins eða menntamála. Það er blekking ein í framsetningu þessarar ríkisstjórnar og hún sýnir það best í áliti meiri hluta fjárlaganefndar sem fylgir okkur inn í 2. umr. um fjárlög.

Það er sérkennilegt að horfa á einmitt þessa umræðu um ríkisfjármál og hagstjórn. Ríkisstjórnin virðist ekki gera nokkurn greinarmun á útgjöldum ríkissjóðs og fjárfestingum ríkissjóðs, á rekstrarkostnaði ríkissjóðs og fjárfestingum ríkissjóðs. Það væri nefnilega alveg tilvalið að örva verulega fjárfestingarstigið við þessar kringumstæður. Það er raunar umhugsunarefni, t.d. í lögum um opinber fjármál, hvernig við meðhöndlum fjárfestingar hins opinbera við þessar kringumstæður, þ.e. að við séum að gjaldfæra þær í fjárlögum þegar við ættum þvert á móti að geta skapað talsvert svigrúm, m.a. út frá sterkri fjárhagsstöðu ríkissjóðs, sem er óumdeild, eftir eitt langvinnasta hagvaxtarskeið Íslandssögunnar. Það ætti að vera svigrúm til að auka fjárfestingar verulega á næstu tveimur til þremur árum. Við í Viðreisn gerðum það m.a. að tillögu okkar í umræðum um fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar í vor að það þyrfti einmitt viðbótarinnspýtingu upp á 30–50 milljarða á ári og væri mjög heppilegt að horfa til slíkrar aukningar í fjárfestingum, horft til næstu þriggja ára. Það er einfaldlega lagt til á grundvelli þess að fjárfestingar hafa verið sveltar í tíð þessarar ríkisstjórnar og eru það enn nema þær verði fjármagnaðar með skattahækkunum á almenning í landinu.

Þetta er ákaflega sorgleg staðreynd af því að það er uppsöfnuð þörf upp á 200–300 milljarða hið minnsta í innviðafjárfestingu sem hefði verið kjörið að geta ráðist í af krafti núna þegar við horfumst í augu við efnahagsniðursveiflu sem verður vonandi skammvinn. Ítrekað hefur verið bent á þetta, hvort sem við horfum á meðaltal opinberra fjárfestinga á undanförnum 30 árum eða svo eða ágæta skýrslu Samtaka iðnaðarins um skort á fjárfestingu í innviðum landsins. Það hefði getað verið mjög góð örvun ríkisfjármála inn í þá niðursveiflu en ekki að halda áfram að auka ríkisútgjöldin gegndarlaust eins og ríkisstjórnin er að gera.

Það er líka sorglegt að horfa upp á að verið sé að fresta lækkun bankaskattsins. Það er ítrekað, m.a. í hvítbók sem ríkisstjórnin sjálf lét vinna og búið er að benda á, að skattlagning okkar á fjármálakerfið er einsdæmi í hinum vestræna heimi. Við erum með liðlega 0,5% af landsframleiðslunni í sértækri skattlagningu á bankakerfið og löngu tímabært að ráðast í lækkun vegna þess, eins og fyrr segir, að engir aðrir en viðskiptavinir bankanna greiða þessa skatta með beinum hætti í formi hærri vaxta eða lægri innlánsvaxta. Sú lækkun á útlánavöxtum gæti einmitt örvað verulega fjárfestingarstig á tímum þar sem virkilega er þörf á því.

Hið sama má auðvitað segja um tryggingagjald sem er mjög íþyngjandi skattlagning á atvinnulífið og er enn, þrátt fyrir áður lögfest áform um lækkun þess í tengslum við kjarasamninga, mun hærra en það var á árunum fyrir hrun, mun hærra en það var og hefur verið við sambærilegt atvinnuleysisstig og nú er. Ber að hafa í huga í því samhengi að atvinnulífið er t.d. búið að borga langtum hærra atvinnutryggingagjald á undanförnum árum vegna einstaklega góðs árferðis en sem nemur útgjöldum Atvinnuleysistryggingasjóðs á sama tíma. Það hefði verið full ástæða til að ganga lengra í lækkun tryggingagjalds til að örva atvinnustig í hinu almenna efnahagslífi. Það er eftirtektarvert þegar við horfum á hvar störf hafa orðið til í hagkerfinu á undanförnum árum að tvær greinar standa upp úr. Annars vegar er það ferðaþjónustan. Sá mikli og kröftugur vöxtur sem þar hefur átt sér stað á undanförnum áratug hefur ekki farið fram hjá neinum. Hinn hástökkvarinn er hið opinbera sem hefur bætt við sig þúsundum starfa á sama tíma sem er til marks um hversu mikið báknið hefur verið þanið út á undanförnum árum. Því miður er þessi ríkisstjórn, eins og fyrr segir, að festa skattahækkanir vinstri stjórnarinnar í sessi og raunar líka þær tímabundnu skattahækkanir sem ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks réðst í í upphafi kjörtímabilsins 2013–2016. Það verður ærin vinna að vinda ofan af þeirri miklu útgjaldaaukningu sem orðið hefur í tíð þessarar ríkisstjórnar til að skapa svigrúm til nauðsynlegra skattalækkana.

Það er rétt að hafa í huga að þrátt fyrir þann fordæmalausa hagvöxt sem við höfum upplifað á undanförnum árum, einu lengsta hagvaxtarskeiði í Íslandssögunni, höfum við á sama tíma aukið ríkisútgjöld og skattheimtu sem hlutfall af landsframleiðslu. Við erum núna búin að ná þeim vafasama heiðri að vera eitt skattahæsta land OECD-ríkjanna, að Svíþjóð meðtalinni, með um 34% af landsframleiðslu, að teknu tilliti til útgjalda vegna almannatrygginga, eins og kemur einmitt fram í ágætri samantekt Samtaka atvinnulífsins. Það er veruleg breyting frá því sem var þegar skattumhverfi hér á landi var nokkuð hagfellt í alþjóðlegu samhengi. Það var m.a. hagkvæmt að reka hér fyrirtæki í alþjóðlegu samhengi en er það einfaldlega ekki lengur. Það kann kannski að skýra hversu lítill vöxtur, eða nær enginn vöxtur, hefur orðið í alþjóðlega geiranum hér á landi á undanförnum árum ef ferðaþjónustan er undanskilin.

Það sem vekur athygli þegar kemur að vinnubrögðum í kringum fjárlagagerðina er hversu veik staða þingsins er gagnvart framkvæmdarvaldinu, eins og hefur komið fram í umræðum um fjárlagavinnuna í dag. Maður spyr: Hvaða tilgangi þjónar vinna fjárlaganefndar í tvo mánuði frá því að fjárlagafrumvarp er lagt fram, þar sem tekið er á móti umsagnaraðilum og gestum, hlýtt á umkvartanir þeirra vegna fyrirliggjandi fjárlagafrumvarps, en svo er einfaldlega setið og beðið eftir því að ríkisstjórn komi með breytingartillögur sínar við frumvarpið? Meiri hluti fjárlaganefndar gerir síðan þær sömu breytingartillögur að sínum, óbreyttar. Það mætti spyrja: Gætum við ekki sparað okkur öllum þó nokkra vinnu ef ríkisstjórnin skilaði einfaldlega endanlegu fjárlagafrumvarpi sínu þegar þjóðhagsspá að hausti lægi fyrir sem og endanlegt svigrúm sem ríkisstjórnin væri að vinna með? Það er dálítið farsakennt að horfa upp á þessi vinnubrögð og maður spyr: Er ríkisstjórnin að fría sig ábyrgð á umkvörtunum umsagnaraðila með því að láta fjárlaganefnd þingsins mæta þeim, sinna þeim í nær engu í breytingartillögum sínum og leggja þær breytingartillögur fyrir fjárlaganefnd til að gera þær að sínum? Þá væri kannski betra að ríkisstjórnin bæri ábyrgð á fjárlagavinnunni fram að þeim tímapunkti sem hagspá að hausti liggur fyrir og ríkisstjórnin getur betur glöggvað sig á hvaða svigrúm hún hafi til að vinna með. Þessi vinnubrögð eru í það minnsta leikrit sem mér hugnast ákaflega illa og þykir ekki góð nýting á tíma þings eða fjárlaganefndar og ekki vinnubrögð til fyrirmyndar. Það er klárlega ekki verið að afhenda þinginu frumvarpið til úrvinnslu heldur erum við fyrst og fremst að leika einhverja biðleiki þar til ríkisstjórnin kemur með endanlegar tillögur í nóvember.

Því miður er gripið til kunnuglegra meðala núna til að ná endum saman í fjárlagafrumvarpinu við 2. umr. Þegar ljóst er að efnahagsforsendur verða lakari en gert hafði verið ráð fyrir er gripið til sama ráðs og síðasta vetur, að draga úr fjárfestingum. Ég hlýt að setja spurningarmerki við þá staðhæfingu að það sé svo mikill hægagangur í framkvæmdum við uppbyggingu Landspítala að hægt sé að lækka framlög til þess verkefnis um 40% á milli umræðna, frá því að við vorum hér í september. Ég hefði haldið með þann slaka sem er í hagkerfinu núna að það væri möguleiki með réttri og góðri verkstjórn að spýta í þá fjárfestingu frekar en að draga úr kraftinum í henni. Þetta er nákvæmlega það sama og við sáum gerast í fyrra þegar þurfti að ná endum saman, þá dró ríkisstjórnin úr framlögum til uppbyggingar hjúkrunarheimila þrátt fyrir alla þá umræðu sem átt hafði sér stað um nauðsyn þeirrar uppbyggingar. Þetta gerist nú þrátt fyrir alla umræðuna um þann mikla fráflæðisvanda sem Landspítalinn glímir við, alla umræðuna um þann kostnað sem sá vandi veldur spítalanum og rekstrarerfiðleika sem spítalinn glímir við en ekki síður að spítalinn gæti ekki sinnt lögbundinni og nauðsynlegri þjónustu sem skyldi vegna þess sama fráflæðisvanda. Þetta endurspeglar hins vegar hvað best forgangsröðun ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum. Það eru ríkisútgjöldin og aukning þeirra sem höfuðáherslan liggur á en fjárfestingin líður fyrir sem fyrr.

Þetta kemur líka fram í öðru verkefni sem er þó umtalsvert smærra í sniðum, í niðurskurðinum á endurgreiðslu virðisaukaskatts af kvikmyndagerð. Þar er 300 millj. kr. niðurskurður þótt ítrekað hafi verið bent á gildi nákvæmlega þessa liðar, öflugrar starfsemi erlendra kvikmyndafyrirtækja hér á landi á undanförnum árum fyrir vöxt og uppbyggingu ferðaþjónustu. Á sama tíma og ferðaþjónustan glímir við samdrátt, á sama tíma og skynsamlegt og heppilegt væri frekar að bæta í landkynningu sem þessa, dregur ríkisstjórnin saman seglin. Enn og aftur er í raun dregið úr fjárfestingu til að viðhalda vexti almennra ríkisútgjalda.

Það er þó eitt atriði sem ég vil hrósa í breytingartillögum ríkisstjórnarinnar fyrir 2. umr. fjárlagafrumvarps, auknum útgjöldum í verkefnið Stafrænt Ísland. Þar er augljóst að við höfum gríðarleg tækifæri til hagræðingar í ríkisrekstri og hefur verið metið sem svo að við gætum lækkað árlegan rekstrarkostnað ríkisins um a.m.k. 10 milljarða og kostnað samfélagsins um 20 milljarða til viðbótar með aukinni stafrænni þjónustu hins opinbera. Ítrekað hefur verið bent á að þrátt fyrir að við búum við hvað besta stafræna innviði í alþjóðlegum samanburði og hvað víðtækasta notkun netsins og stafrænnar tækni hjá almenningi er ríkið í 43. sæti í alþjóðlegum samanburði um hagnýtingu stafrænnar tækni í þjónustu við borgarana. Þarna eigum við mikil ónýtt tækifæri og það er fagnaðarefni að ríkisstjórnin ætli að veita aukið fjármagn í þetta mikilvæga verkefni. Þar mætti jafnvel gera enn meira.

Það er eitt sem mér þykir stórlega athugavert í bókhaldsjöfnun, getum við sagt, ríkisstjórnarinnar í fjárlagafrumvarpinu núna við 2. umr., þ.e. hvernig við meðhöndlum LÍN sem einhvern sparibauk fyrir ríkisfjármálin. Við erum í vetur að ræða grundvallarbreytingu á fyrirkomulagi námslána þar sem við ætlum að gefa námsmönnum kost á allt að 30% af niðurfellingu láns með tímanlegri námsframvindu sem ég myndi ætla að fæli í sér stóraukna ásókn í námslán og væntanlega talsvert aukinn kostnað LÍN eða nýs Menntasjóðs vegna þessa sama stuðnings. Á sama tíma drögum við verulega úr framlögum til LÍN og göngum jafnframt á eigið fé LÍN. Þar kemur svo eiginlega að því besta, sem því miður hefur ekki enn fengist að mínu viti nægjanleg skýring á frá fjármálaráðuneytinu, hvernig það megi vera að við getum dregið 5 milljarða af eigin fé LÍN án þess að það hafi nokkur áhrif á virði LÍN í bókum ríkisins. Ég myndi ætla að þetta héldist í hendur með nákvæmlega sama hætti og að þegar greiddur er viðbótararður út úr fyrirtæki hljóti virði þess sama fyrirtækis að öðru óbreyttu að minnka. Þegar það fer saman að við erum að taka út tæplega 5 milljarða kr. arðgreiðslu og draga verulega úr árlegum framlögum til LÍN hlýtur þetta tvennt til samans að rýra virði eigin fjár LÍN í bókum ríkissjóðs. Hins vegar virðist ekki vera tekið tillit til þess eða gjaldfært á móti. Ég velti fyrir mér hvernig þetta standist varfærnissjónarmið laga um opinber fjármál. Ég velti reyndar fyrir mér hvernig þetta standist bara einföld viðmið um góða reikningsskilavenju. Á þessu fáum við vonandi betri skýringar frá fjármálaráðuneytinu áður en kemur til 3. umr. um fjárlagafrumvarp. Ég er a.m.k. fyrir mitt leyti mjög forvitinn að vita hvernig þetta fær staðist.

Að síðustu langar mig að nefna nokkuð sem er löngu tímabært að ríkisstjórnin grípi til aðgerða í, þ.e. sölu bankanna. Sala þeirra eða sala á hluta af eignarhaldi ríkisins í bankakerfinu. er löngu tímabær. Hún hefur verið til umræðu allt frá því að ríkið leysti fjármálakerfið meira og minna til sín. Eignarhald ríkisins á bankakerfinu hér á landi er algjörlega fordæmalaust í vestrænum samanburði og enn erum við bara að tala um mikilvægi þess að ríkið byrji að losa um eignarhald sitt á bönkunum. Ekkert skref hefur verið stigið ef frá er talin sala á eignarhlut ríkisins í Arion banka sem er í þessu samhengi smávægilegur miðað við eignarhlutinn í Íslandsbanka og Landsbankanum. Þetta getur ekki verið svona flókið verkefni. Það hlýtur að vera harla einfalt að halda af stað í þessa vegferð, t.d. með skráningu á Landsbankanum í kauphöll hér á landi og sölu í dreifðu eignarhaldi, þótt ekki væri nema á fjórðungshlut í bankanum. Eigendastefna ríkisins liggur fyrir hvað þetta varðar, að ríkið ætli sér að halda eftir kjölfestuhlut í bankanum og geta þannig stýrt för, svo ekki sé talað um að ef vel tækist til við sölu og að eignarhald yrði að öðru leyti dreift, en það er löngu orðið tímabært að ríkið byrji að losa um eignarhaldið enda verður ekki annað séð en að virði bankakerfisins geri fátt annað en að rýrna í höndum ríkisins við núverandi kringumstæður. Ég vona sannarlega að við sjáum fyrstu skrefin verða stigin þar á næsta ári en ég óttast hins vegar að það verði bara framhald af þeirri umræðu sem verið hefur hingað til, að það verði einfaldlega orðin tóm. Sennilega er það vegna þess að innan þessarar ríkisstjórnar er engin samstaða um það að losa um eignarhaldið á fjármálakerfinu. Eins og með allt annað sem þessi ríkisstjórn getur ekki komið sér saman um er það einfaldlega látið liggja í kyrrþey. Þessi ríkisstjórn var ekki stofnuð til neinna pólitískra stórræða heldur fyrst og fremst til að hagnýta sér hið hagstæða efnahagsumhverfi sem verið hefur hér á undanförnum árum til stórsóknar í ríkisútgjöldum. Eftir sitjum við með óbreytt ástand hvað varðar eignarhald ríkisins á fjármálakerfinu og sennilega bíður það næstu kosninga að fá einhverja stefnubreytingu þar.

Að því sögðu ætla ég ekki að lengja mál mitt um þetta. Það sem upp úr stendur er að útgjaldagleði þessarar ríkisstjórnar hefur ekkert með ábyrga hagstjórn að gera. Það vill bara svo skemmtilega til að loksins hitti ríkisstjórnin á einn tímapunkt í fjárlagagerðinni hjá sér þar sem það hentaði að ríkisútgjöldin væru að aukast jafn mikið og raun ber vitni. Þetta er þriðja atlaga ríkisstjórnarinnar, í hin tvö hefur hún einmitt verið gagnrýnd fyrir hið gagnstæða, að verið væri að auka ríkisútgjöld allt of mikið á tímum þenslu, en að því kom að útgjaldastefna ríkisstjórnarinnar hentaði hagstjórninni. Úr því hefur ríkisstjórnin gert talsvert mikið í þetta skiptið en gerði lítið með þá gagnrýni sem að henni var beint í fyrri skiptin tvö þegar ítrekað var bent á að þetta væri óábyrg fjármálastjórn hins opinbera. Við sjáum hvað verður við endanlegan frágang á þessum fjárlögum.

Það sem er kannski mest um vert í þessari umræðu er hvernig ríkisstjórnin fer með það óvissusvigrúm sem við staðfestum í þinginu í vor í breyttri fjármálastefnu til að skapa svigrúm fyrir efnahagslega niðursveiflu sem ríkisstjórnin var í raun og veru búin að eyða svigrúminu fyrir. Þetta er svipað og að veita sjálfum sér yfirdrátt til að mæta mögru árunum á næsta ári en eyða yfirdrættinum strax. Það er nákvæmlega það sem ríkisstjórnin er að gera. Það er búið að eyða þessum yfirdrætti. Við höfum ekkert svigrúm lengur til að mæta frekari efnahagslegri óvissu sem kann vel að vera í spilunum án þess að hér sé um neinar hrakspár að ræða. Við erum einfaldlega að tala um að í hagspá er enn mikil bjartsýni miðað við hefðbundna íslenska niðursveiflu, miðað við stöðu gengis og samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs. Það er vert að hafa í huga í því samhengi að raungengi íslensku krónunnar er enn á grundvelli launa hærra en nokkurn tímann hefur staðist jafnvægisástand í íslensku efnahagslífi. Við eigum enn eftir að sjá hvort hér hafi orðið einhver grundvallarbreyting í efnahagslífinu eða hvort við eigum einfaldlega eftir að taka út þá leiðréttingu sem venjulega hefur fylgt slíku raungengisstigi, þ.e. á mannamáli í formi gengisfellingar og tilheyrandi verðbólguskots og kjararýrnunar með alvarlegum afleiðingum fyrir afkomu ríkissjóðs. Staðreyndin er hins vegar sú að ríkisstjórnin skilur ekkert svigrúm eftir á borðinu til að mæta því á næsta ári heldur treystir einfaldlega á að þetta verði allt saman í lagi. Það er ekki ábyrg fjármálastjórn og ekki í anda grunngilda laga um opinber fjármál, þ.e. um varfærni í ríkisfjármálum.

Ég óttast að við munum standa frammi fyrir þeim veruleika þegar líður á næsta ár að hallarekstur ríkisins verði umtalsvert meiri en hér er gert ráð fyrir og að það óvissusvigrúm sem samþykkt var fyrir fáeinum mánuðum í fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar muni ekki duga til.