150. löggjafarþing — 33. fundur,  18. nóv. 2019.

samskipti Sjúkratrygginga og hjúkrunarheimila.

[15:19]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Samtök í velferðarþjónustu fengu ásamt fleirum KPMG til að gera úttekt á samskiptum sínum við Sjúkratryggingar Íslands og virðist ekki vera vanþörf á því vegna þess að þar virðist allt vera frosið, einhvern veginn í algjöru frosti, en það sem er líka alvarlegt og kom skýrt fram í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar er að mikill meiri hluti hjúkrunarheimila var rekinn með tapi. Fjölmörg sveitarfélög bera fjárhagslega ábyrgð á rekstrartapinu og þurfa að standa undir viðvarandi halla árum saman.

Það sem er alvarlegast í þessu er að það sem á að gera samkvæmt fjárlagafrumvarpinu er að setja málið í nefnd, þar stendur að það eigi að fara í þverpólitíska nefnd, sem á að skila eftir ár. Eftir ár á að skila einhverri niðurstöðu sem við vitum að þarf að ske strax í dag. Annað sem er líka mjög alvarlegt í þessu er að fyrir ári síðan, í fjáraukalögum, segja Samtök í velferðarferðarþjónustu að SÍ hafi neitað að greiða 276 millj. kr. framlag samkvæmt fjárlögum til heimilanna vegna aukningar á hjúkrunarþyngd. Hvar eru þessir peningar? Er búið að greiða? Ef svo er þá er það gott. Ef ekki er búið að greiða þessa peninga spyr ég hvort eigi að gera það og þá hvenær. Það hlýtur að vera mjög undarlegt ef ekki er hægt að greiða þessa peninga vegna þess að það er ekki samningur í gildi en það er enginn vilji hjá Sjúkratryggingum Íslands að gera neina samninga. Það virðist vera einhvern veginn allt í frosti. Sjúkratryggingar Íslands virðast vera ríki innan ríkisins og halda öllu þessu kerfi í heljargreipum.