150. löggjafarþing — 33. fundur,  18. nóv. 2019.

hagsmunatengsl.

[15:41]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Í viðtali sem birtist á visir.is 13. nóvember sl. sagði hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra Sigurður Ingi Jóhannsson aðspurður hvort hann teldi að Samherji stundaði viðlíka mútugreiðslur á Íslandi, með leyfi forseta:

„Ég held að það sé nú fjarstæðukennd tilhugsun.“

Þessi ummæli hæstv. ráðherra hafa rifjað upp önnur öllu frægari ummæli hæstv. ráðherra frá árinu 2016, hjá a.m.k. einhverjum ótilgreindum netverjum, því að nú ganga hin fleygu viðbrögð fyrrverandi atvinnuvegaráðherra og núverandi hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra við Panama-skjölunum á milli manna á samfélagsmiðlunum. Um er að ræða þá afstöðu hæstv. ráðherra til aflandseigna ráðherra í eigin ríkisstjórn að það sé, með leyfi forseta, „augljóslega talsvert flókið að eiga peninga á Íslandi“. En það er kannski annað mál, forseti.

Ég vil ræða við hæstv. ráðherra, ekki beint um mútur en um hagsmunatengsl, þá ásýnd og það vinnulag sem birtist nú almenningi af hálfu ríkisstjórnar Íslands í kjölfar Samherjamálsins. Í ljósi þess að hæstv. ráðherra hefur gegnt sambærilegri stöðu og núverandi hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fyrir ekki svo löngu vil ég spyrja hæstv. ráðherra sömu spurningar og hæstv. forsætisráðherra Katrín Jakobsdóttir fékkst ekki til að svara í óundirbúinni fyrirspurn hv. þm. Halldóru Mogensen hér rétt áðan. Við vitum að hæstv. sjávarútvegsráðherra gerði að sínu fyrsta verki að hringja í forstjóra Samherja, æskuvin sinn og fyrrverandi samstarfsmann, eftir að hann fékk spurningar frá fjölmiðli um vafasama starfshætti fyrirtækisins — þetta er a.m.k. viku fyrr en almenningur fær þessar upplýsingar — og spyr forstjóra Samherja hvernig þeir hyggist taka á yfirvofandi fjölmiðlaumfjöllun.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvaða skilaboð finnst honum hæstv. sjávarútvegsráðherra hafa verið að senda út í samfélagið með þessu símtali sínu?