Bráðabirgðaútgáfa.

150. löggjafarþing — 36. fundur,  27. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[16:10]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég held að það sé full ástæða til að ræða aðeins betur lög um opinber fjármál í þessum sal og þau orð sem hafa fallið frá hæstv. dómsmálaráðherra, hæstv. forsætisráðherra og fleiri þingmönnum stjórnarmeirihlutans. Það er alveg skýrt hvað er heimilt og hvað er ekki heimilt að gera. Það er ekki heimilt að færa fjármuni frá ríkisskattstjóra yfir á héraðssaksóknara. Það er hvort á sínu málefnasviði og ekki heimilt að færa þar á milli. Í sama málaflokki, sem ráðherra er vissulega heimilt að færa á milli, eru þrjár aðrar stofnanir; héraðssaksóknari með um 1 milljarð í heildarframlög, hinar þrjár til samans með rétt liðlega 600 millj. kr. Héraðssaksóknari er búinn að leggja fram rökstudda ósk um allt að 150 millj. kr. til viðbótar sem þurfi til að sinna verkefnum embættisins. Á það að koma af fjárheimildum hinna þriggja stofnananna, sem væri þá allt að fjórðungur af fjárheimildum þeirra? Ég held að það hljóti að liggja í augum uppi að svo er ekki. Þá er horft til varasjóða en það liggur alveg skýrt fyrir að það er ekkert óvænt eða ófyrirséð (Forseti hringir.) og ekki fjárbeiðni sem ekki er hægt að bregðast við með öðrum hætti, fjárbeiðni sem liggur rökstudd fyrir frá héraðssaksóknara um hvað þurfi til.

Þetta er sandkassaleikur og hér er verið að brjóta lög um opinber fjármál með opin augu. (Gripið fram í: Það er rétt.)