150. löggjafarþing — 38. fundur,  2. des. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 172/2019 um breytingu á XIX. viðauka við EES-samninginn.

429. mál
[17:29]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Með þessari þingsályktunartillögu er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 172/2019 sem mælir fyrir um að reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins 2017/2394 frá 12. desember 2017, um samvinnu milli landsyfirvalda sem bera ábyrgð á að framfylgja lögum um neytendavernd og um niðurfellingu reglugerðar nr. 2006/2004, verði tekin upp í EES-samninginn.

Í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins 2017/2394 frá 12. desember 2017, um samvinnu um neytendavernd, er lagt upp með að tryggja eftirfylgni við lagaákvæði á sviði neytendaverndar, sérstaklega í þeim tilvikum þar sem um er að ræða viðskipti yfir landamæri og auka þar með virkni innri markaðarins og neytendavernd. Í reglugerðinni er áfram kveðið á um net opinberra eftirlitsstofnana sem nær yfir allt Evrópska efnahagssvæðið.

Á grundvelli reglugerðarinnar öðlast stofnanirnar réttindi og skyldur varðandi gagnkvæma aðstoð við meðferð ákveðinna brota sem beinast gegn neytendum. Þau brot sem um ræðir eru brot gegn lagaákvæðum sem innleiða þær gerðir Evrópusambandsins á sviði neytendaverndar sem taldar eru upp í reglugerðinni.

Með reglugerðinni er kveðið á um aukna skilvirkni í gagnkvæmri aðstoð stofnana yfir landamæri og um ákvarðanatöku. Þá kveður reglugerðin á um nýjar lágmarksvaldheimildir sem eftirlitsstofnanir á sviði neytendaverndar þurfa að hafa yfir að ráða.

Innleiðing reglugerðarinnar kallar á setningu nýrrar löggjafar um samvinnu stjórnvalda á Evrópska efnahagssvæðinu um neytendavernd. Þá þarf að fella úr gildi lög um samvinnu stjórnvalda á Evrópska efnahagssvæðinu um neytendavernd, nr. 56/2007. Samhliða því þarf að breyta ýmsum lögum á sviði neytendaverndar til þess að lögbær yfirvöld sem fara með framkvæmd þeirra hafi þær lágmarksheimildir til framfylgdar og rannsókna sem kveðið er á um í reglugerðinni.

Frumvörp til innleiðingar á reglugerðinni voru lögð fram á Alþingi þann 1. nóvember 2019, samanber 330. mál og 331. mál á 150. löggjafarþingi 2019–2020.

Ég legg til, virðulegur forseti, að að aflokinni þessari umræðu verði tillögu þessari vísað til hv. utanríkismálanefndar.