150. löggjafarþing — 39. fundur,  3. des. 2019.

búvörulög.

433. mál
[18:38]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Blessunarlega hefur greinin gert vel og haldið áfram að eflast í gegnum margs konar breytingar og rýmri reglur nema kannski að einu leyti. Ég held að menn átti sig á því að ég hlýt að koma hingað upp og spyrja hæstv. ráðherra. Fyrir það fyrsta spyr ég: Af hverju er samningurinn, sem reyndar er ekki enn búið að samþykkja, ekki fylgiskjal með frumvarpinu? Samningurinn varpar eðlilega ljósi á ákveðna þætti og forsendur og hvernig ríkisvaldið hefur nálgast samningsgerðina. Ég hefði vissulega viljað sjá ríkisvaldið nýta tækifærið og huga að fleiri þáttum en ég vil líka hrósa ráðherra fyrir að snert er á ýmsum þáttum í samningnum. Ég tel því að það hefði verið til bóta að hafa hann með sem fylgiskjal.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hafi tekið það upp að eigin frumkvæði að afnema undanþágu mjólkuriðnaðarins frá samkeppnislögum, hvort hann hafi sagt: Hluti af þessari endurskoðun er að við skrifum undir samninga um að mjólkuriðnaðurinn falli allur undir samkeppnislög. Mig langar að vita hvort ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og Vinstri grænna hafi tekið það eðlilega samkeppnismál upp af því verið er að endurskoða búvörusamninginn, þennan þátt sem snertir kúabændur. Ef við horfum á þann umdeilda samning sem var gerður 2016 — það er margt ágætt í þeim samningi, ég held að það megi alveg draga það fram — er engu að síður verið að fylgja honum eftir, þá kannski með réttu. Kúabændum var veitt þetta svigrúm til að taka afstöðu um það hvort leggja ætti kvótakerfið niður 2021 en afgerandi meiri hluti þeirra hafnaði því og ráðherra er að fylgja því eftir. En það er greinilega meira sem var dregið þarna inn.

Mig fýsir í mínu fyrra andsvari (Forseti hringir.) að fá að vita hvort ráðherra hafi sýnt því frumkvæði að afnema þessar undanþágur á mjólkurmarkaði sem veita sérstaklega einu fyrirtæki algjöra einokunaraðstöðu.