150. löggjafarþing — 40. fundur,  4. des. 2019.

heimild til að greiða bætur vegna dóms Hæstaréttar í máli nr. 521/2017.

183. mál
[15:45]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég vil leggja áherslu á og taka fram að við búum við þrígreiningu ríkisvaldsins. Þar er grundvallaratriði að hver og ein grein ríkisvaldsins haldi sér með sín verkefni og gangi ekki inn á verkefnasvið annarrar. Þannig á þetta mál ekki heima hér í sölum Alþingis og með því móti er verið að viðhalda pólitísku yfirbragði á þessu máli og þótti þó mörgum nóg komið af þess konar afskiptum í einmitt þessu máli. Að setja það enn og aftur í hendur pólitíkusa er stórhættulegt og það á einfaldlega ekki heima þar. Afstaða Miðflokksins er skýr, samningar og ákvarðanir um bótaskyldu og bótafjárhæðir eiga að vera á verksviði viðkomandi stjórnvalda sem fara með samninga fyrir ríkisvaldið, og dómstóla ef svo ber undir. Það er þó ekki útilokað að málið komi á dagskrá síðar þegar dómstólar hafa komist að niðurstöðu ef svo ber undir. Það er síðari tíma mál.