tekjuskattur og staðgreiðsla opinberra gjalda.
Herra forseti. Það er fagnaðarefni þegar skattar eru lækkaðir almennt þó að hér sé ansi hægt farið. Í raun er vart hægt að tala um neina skattalækkun á næsta ári. Hins vegar er verið að lögfesta skattalækkun inn á árið 2021 sem er ánægjulegt og vonandi stendur hún, vonandi hefur ríkisstjórnin ráð á þeirri skattalækkun þegar þar að kemur. Staðreyndin er hins vegar sú að enn og aftur er gripið til gamalkunnugs ráðs sem er að rýra tekjutilfærslur kerfisins. Kannski væri bara best að ríkisstjórnin viðurkenndi opinberlega að það ætti að leggja vaxtabótakerfið af því að það virðist vera stefna þessarar stjórnar. Barnabætur rétt ná að halda í við verðlagsþróun en þó er verið að rýra þar hlut tekjulægsta hópsins og raunar má færa rök fyrir því að að teknu tilliti til vaxtabóta og barnabóta sé um skattahækkun á þá tekjulægstu að ræða með því að samþykkja þetta mál óbreytt.
Þess vegna mun ég sitja hjá við afgreiðslu málsins.