150. löggjafarþing — 43. fundur,  11. des. 2019.

störf þingsins.

[15:39]
Horfa

Þorgrímur Sigmundsson (M):

Herra forseti. Í svari iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn Birgis Þórarinssonar þingmanns Miðflokksins hefur áður komið fram að kostnaður við jarðgöng og vegtengingar vegna kísilversins á Bakka hafi kostað ríkissjóð 3,5 milljarða kr. Það er því augljóst að hér er um mikil verðmæti að ræða. Þó er sá hængur á þegar kemur að rekstri og viðhaldi ganganna að enginn vill kannast við krógann. Krógi þessi þarfnast þess að einhver vilji axla ábyrgð á tilvist hans. Vegagerðinni hefur ekki verið úthlutað fé til að sinna viðhaldi á vegtengingunni milli hafnarsvæðisins og Bakka. Þess vegna má færa fyrir því rök að hér sé enn eitt dæmið um að framkvæmdir á vegum ríkisins séu að grotna niður.

Á sínum tíma skrifaði þáverandi hæstv. ráðherra Steingrímur J. Sigfússon undir vegna framkvæmdanna, enda framkvæmdirnar ætlaðar fleirum til afnota en PCC og framkvæmdin á hendi ríkisins. Því skyldi maður ætla að augljóst væri að viðhald á framkvæmdinni væri ekki á hendi sveitarfélagsins Norðurþings. Ríkið hefur þegar lýst því yfir að vegurinn í gegnum göngin sé á ábyrgð þess, verði í umsjón ríkisins og lúti eftirliti þess, m.a. í svari Eftirlitsstofnunar EFTA frá því í janúar 2016. Nú verður að hreinsa þetta mál í eitt skipti fyrir öll, útkljá deilur á milli ráðherra og ráðuneyta í þessu máli, ef einhverjar eru, og veita fjármagn til Vegagerðarinnar til að hægt sé að þjónusta þennan mikilvæga veg svo sómi sé að. Málið er í hnút og kostnaður við veghaldið, sem aðallega fellur til á vetrum, lendir á þeim sem nauðsynlega þurfa að nota veginn. En það vísar hver á annan.

Herra forseti. Ég skora hér með á ríkisstjórnina að koma hreint fram við sveitarfélagið Norðurþing í þessum efnum eins og áður hafði verið lofað.