150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

fjáraukalög 2019.

364. mál
[22:23]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir að mörgu leyti ágæta ræðu. Margt af því sem kom fram í máli hans var allrar athygli vert. Sérstaklega langar mig aðeins að nefna þessi sjónarmið sem hann nefndi um varúð og festu sem mér finnst skipta ansi miklu máli þegar við ræðum þessi mál og sérstaklega að við gerð síðustu fjárlaga voru uppi mörg varnaðarorð um að útlitið væri kannski ekki alveg jafn bjart og menn vildu treysta á. Auðvitað er það svo sem sjónarmið að það er erfitt að sjá framtíðina fyrir en margt af því sem var varað við kom á daginn. Síðan er það þessi klassíska regla: Ef þú vilt vera varfærinn og gæta varúðar gætirðu þess að hafa borð fyrir báru. Það er hygginna manna háttur að hafa borð fyrir báru því að annars er hætt við því að það gefi um of á bátinn og hann verði ekki jafn haffær og ella. Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort hann líti þannig á að það sé meira og minna inngreypt í kerfi okkar að við kunnum ekki að gæta varúðar. Eða er þetta vegna þess (Forseti hringir.) að sú stjórn sem nú situr að völdum er búin að ákveða að gæta ekki varúðar og láta skeika að sköpuðu?