150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

fjáraukalög 2019.

364. mál
[23:35]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst það vinnulag gott að ríkisstjórn setji sér fjármálastefnu í upphafi kjörtímabils þar sem hún horfir á það hvernig meginstefnur eigi að vera, en ég vil taka í burtu fjármálareglurnar. Ég vil bara að hver ríkisstjórn segi hvernig þau sjá fyrir sér helstu tölurnar og það sé einhver sveigja í því svo ríkisstjórnir vefji sig ekki í eigin spennitreyju eins og fjármálaráð hefur gagnrýnt stefnurnar fyrir hingað til. Ég vil að ríkisstjórnin, eins fljótt og hún getur eftir að hún kemur saman, setji niður fjármálastefnuna, stóra plaggið, sem á að vera þannig úr garði gert að ekki sé verið að taka það upp að ári eins og gerðist hjá þessari ríkisstjórn með hennar fyrstu stefnu, sem var líka gagnrýnd. Þau hefðu haft möguleika til þess að gera þetta allt öðruvísi. Fjármálaáætlun er líka óskaplega mikilvæg fyrir stefnuna og að stefnan sé skýr fyrir hvert málasvið og við þingmenn getum með einhverju móti metið hvort upphæðirnar sem eru settar í fjármálaáætlun geti borið uppi stefnuna. En þá þarf að vera meira gagnsæi í því plaggi. Mig langar ekki til þess að fara aftur á þann stað þar sem fulltrúar í fjárlaganefnd voru að sýsla með 500.000 kalla og milljón krónur en létu milljarðana fram hjá sér fara. Við eigum að (Forseti hringir.) eyða mestum tíma í stóru tölurnar en við þurfum líka að hafa gagnsæi til að sjá alveg niður í þær minni.