150. löggjafarþing — 45. fundur,  13. des. 2019.

búvörulög og tollalög.

382. mál
[15:24]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Forseti. Við erum að fjalla um frumvarp til laga um breytingu á búvörulögum og tollalögum, úthlutun tollkvóta. Ef ég dembi mér í frumvarpið þá er í 1. gr. þess verið að segja að 3. mgr. 65. gr. laganna orðist á annan hátt en það er í rauninni bara verið að bæta aftan við hana. Það hefði verið hægt að gera þetta þannig, það er verið að bæta við texta sem hefst á orðunum:

„Til þess að tilboð teljist gilt er heimilt að fara fram á ábyrgðaryfirlýsingu eða staðgreiðslu tilboðs. Við útboð tollkvóta skulu valin hæstu verðtilboð í tiltekið magn þar til magni tollkvóta sem til ráðstöfunar er hefur verið náð.“

Síðan er það lægsta tilboð sem ræður verðinu. Þetta er kallað hollenska leiðin. Það er verið að fara aðra leið. Þegar þessi tollkvóti er boðinn út er það lægra verð sem kemur til ríkisins og ef það síðan skilar sér hjá þeim sem kaupa þennan tollkvóta og sinna verslun til neytandans ætti það að skila lægra verði. Nú vitum við samt sem áður að á Íslandi er fákeppni mikil. Á sínum tíma þegar ég aðstoðaði við að gera skýrslu hjá Samkeppnisstofnun, sem svo hét þá, varðandi samþjöppun matvælaverslana og verslana stórkaupmanna, þ.e. Hagkaup og Bónus og allar þessar verslanakeðjur í kringum árið 2000 var strax orðin gríðarleg samþjöppun á þeim markaði. Við vitum að það er gríðarleg fákeppni á þeim markaði sem þýðir að svona lækkanir skila sér ekki endilega. En Píratar eru hlynntir því að í áföngum, eins og segir í okkar stefnu, verði tollar á matvælum og innflutningshömlur aðrar en af heilbrigðisástæðum lækkaðir og falli að lokum niður. Á móti viljum við Píratar að það komi til stuðningur við búvöruframleiðendur út af því að tollkvótarnir eru alltaf reiknaðir sem ákveðin vernd fyrir búvöruframleiðendur. Neytendur verða fyrir 100% skaða af þeim tollum sem eru settir á en þeir skila sér í ákveðnum stuðningi við búvöruframleiðendur. Tölur sem ég rakst á þegar ég var að skoða þetta á sínum tíma í skýrslu sem Geir H. Haarde bað um á sínum tíma sýndu að hann var ekki nema 60%. Þannig að skaðinn sem neytendur verða fyrir skilar sér ekki nema í mjög takmörkuðum stuðningi. Það er ofboðslegt tap á því að fara þessa leið. Betra væri að fara þá leiðina að sú upphæð sem búvöruframleiðendur fá sem ígildi stuðnings með tollunum skili sér í að þeir fái hana í formi styrkja og jafnvel örlítið hærri en síðan er það þá bara tekið út á virðisaukaskattinum til að skila þeim því. Þannig að á endanum geta neytendur fengið lægra verð á matvælum, ríkið fengið sinn hluta og búvöruframleiðendur meira. Þannig að allir geta grætt ef það er farið frá því að vera með tollana yfir í beinan stuðning.

Það er eitt sem kom mjög skýrt fram í nefndinni þegar við vorum að ræða þetta, það eru allir tilbúnir að eiga þetta samtal. Sumir eru alfarið með því að fara strax í þetta en það eru allir — líka búvöruframleiðendur sem tjáðu sig um þennan lið — tilbúnir að eiga þetta samtal um að fara í beinu styrkina.

Ég held áfram með frumvarpið. Þá er það 2. gr. frumvarpsins. Annars vegar er verið að breyta tímabilum, hvenær á árinu það eru ekki tollkvótar og hvenær þeir eru. Sumt af þessu er byggt á ónógum upplýsingum. Ráðherra ætlaði að úthluta 400 tonna tollkvóta á svínasíðum sem eru notaðar í beikon en þá byggir reikniformúlan um hvað mikið hafi verið flutt inn og hvers vegna ætti að bæta þessum 400 tonnum við til að anna eftirspurn á Íslandi vegna ferðamanna sem vilja fá beikonið sitt á morgnana og „börgerinn“ á ónógum upplýsingum. Það eru mjög takmarkaðar og ekki góðar upplýsingar til um nákvæmlega þessi atriði sem á að breyta og varða tollana. Ég ætla því ekki að taka afstöðu til nákvæmlega hvaða breytingar verði en ég mun greiða atkvæði gegn öllum breytingartillögum nefndarinnar á þessum atriðum. Því þótt einhver útvíkkun sé frá frumvarpinu sem kemur frá ráðherra varðandi tollkvótana ákvað meiri hluti nefndarinnar að fella út þessi 400 tonn — ég hefði kannski sagt já við því af því að það eru ónógar upplýsingar varðandi það atriði — og þrengja alla aðra ramma og öll önnur tímabil og setja þak á hvað sé hægt að flytja inn þegar opnu tímabilin eru. Í raun á að gera tollverndina meiri á öllum sviðum í breytingartillögum meiri hlutans þegar kemur að magni og tíma. Ég mun greiða atkvæði gegn því.

Í 3. gr. frumvarpsins segir að 87. gr. laganna falli brott. Það er verið að fella brott ákveðna nefnd sem ráðlagði ráðherra út frá greinilega mjög takmörkuðum upplýsingum um hvernig ætti að haga tollkvótum sem eru í rauninni skattar. En eitthvað hafa menn endurskoðað þetta og í dag segir ráðuneytið að með þessu sé verið að heimila ráðherra að taka ákvarðanir um skatta sem náttúrlega Alþingi eitt getur gert. Alþingi hefur því í árafjöld útvistað valdi til ráðherra um tilhögun skatta. Slíkt segir ráðuneytið í dag að stangist á við stjórnarskrána og mun ég að sjálfsögðu samþykkja það og er sammála þeirri niðurstöðu ráðuneytisins. Ráðherra á ekki að hafa það vald. Ákvæðið er fellt brott. Ég styð það.

Í 4. gr. falla brott ákvæði T og AA, það eru bráðabirgðaákvæði sem eru orðin úrelt. Svo í 5. gr. frumvarpsins eru gerðar breytingar á 12. gr. laganna: „Tollur á þær vörur sem eru fluttar inn samkvæmt tollkvótum sem tilgreindir eru í viðaukum IVA og IVB skal lagður á sem magntollur og vera 45% af ákveðnum magntolli samkvæmt tollskrá.“ Aftur: Skortur á upplýsingum um þessa hluti er rosalega mikill. Þess vegna er líka svo erfitt að taka ákvarðanir um þetta og þess vegna er það orðið jafnvel brot á stjórnarskránni að leyfa ráðherra að taka þessa ákvörðun um skatta, byggða á takmörkuðum upplýsingum. Það er orðið svo matskennt að ráðherra getur gert það. Allt þetta tollaumhverfi varðandi matvæli er í miklum ólestri. Það er alveg makalaust að menn skuli hafa viðhaldið þessu kerfi í svona langan tíma.

Ég endurtek: Búvöruframleiðendur sem við töluðum við eru tilbúnir í samtalið um að skoða það að færa sig í beina styrki. Það græða allir á því, búvöruframleiðendur græða á því. Neytendur græða á því, ríkið græðir á því, verslunin græðir á því. Að færa sig frá tollkvótum sem eru skaðlegir. Ígildi þess stuðnings sem búvöruframleiðendur búa við í dag í formi tollkvóta fái þeir í staðinn í formi styrkja og jafnvel ætti að hafa styrkina rúma til að byrja með og síðan jafna þá út eftir aðstæðum. Við erum núna að breyta tollum eftir aðstæðum. Það er alveg hægt að breyta tollum og þeir eru alltaf að breytast. Það er ekkert öruggara umhverfi en að færa þetta yfir í beina styrki þar sem allir græða.