150. löggjafarþing — 45. fundur,  13. des. 2019.

framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum 2020--2023.

102. mál
[16:18]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Forseti. Eins og fram kom í máli hv. þingmanns sem flutti nefndarálitið rétt áðan fór allsherjar- og menntamála nefnd nokkuð vel og ítarlega í gegnum þá framkvæmdaáætlun sem liggur nú fyrir. Þess má geta í byrjun að mig minnir að einn fundur allsherjar- og menntamála nefndar hafi aðeins verið skipaður körlum og þeir höfðu orð á því að þeir hefðu þrátt fyrir það staðið sig ágætlega í að koma málinu áfram. Það var svolítið skemmtilegt augnablik að heyra það.

Nefndin fékk fjölmarga gesti og nokkuð góðar umsagnir, ekki er hægt að segja annað. Hér liggur fyrir mjög stórt og viðamikið mál. Það er að verða breyting á því hvernig við fjöllum um jafnrétti. Það er ekki aðeins jafnrétti kynjanna, það er í miklu víðari skilningi sem við ræðum jafnrétti nú um stundir. Þar sem við stöndum frammi fyrir þessari miklu breytingu er alveg ljóst að við þurfum að sjá til þess að sannarlega verði til fjármagn og mannafli til að ráðast í þær aðgerðir sem þarf að ráðast í. Það er líka mikilvægt að við minnumst þess að hafa með í ráðum og í huga svokallaða minnihlutahópar, þá hópa sem við skilgreinum oft sem viðkvæma, til að mynda fatlað fólk og fólk af erlendum uppruna. Þetta er vel skilgreint í nefndarálitinu og afar vel með farið.

Mig langar aðeins, með leyfi forseta, að grípa niður í kafla sem fjallar um stjórnsýsluna:

„Við meðferð málsins aflaði nefndin upplýsinga um starfs hlutfall jafnréttis fulltrúa ráðuneyta og í ljós kom að mikill misbrestur er á því að skilgreint sé hversu stórum hluta starfs viðkomandi starfsmanns skuli varið til slíkra verkefna. Jafnréttis fulltrúar sinna allir öðrum störfum í ráðuneytum samhliða verkefnum jafnréttis fulltrúa sem hefur fjölgað umtalsvert. Í 3. verkefni [þessarar framkvæmdaáætlanir] er lagt til að starfsreglur og starfs áætlun jafnréttis fulltrúa verði endurskoðuð.“ — Því ber að fagna. — „Nefndin telur endurskoðunin brýna þar sem mikilvægt er að skýr rammi sé utan um starf jafnréttis fulltrúa og beinir því jafnframt til ráðuneytanna að skilgreina hversu hátt hlutfall af starfi þess sem sinnir hlutverki jafnréttis fulltrúa sé ætlað til þeirra verkefna.

Jafnréttis fulltrúum ber samkvæmt 13. gr. jafnréttislaga að senda Jafnréttis stofu árlega greinargerð um stöðu og þróun jafnréttismála á málefnasvið viðkomandi ráðuneytis og er það hlutverk þeirra áréttað í framkvæmdaáætluninni. Við meðferð málsins óskaði Jafnréttis stofa eftir því að hlutverk stofnunarinnar við vinnslu skýrslunnar yrði skýrt. Samkvæmt upplýsingum frá forsætisráðuneyti er hlutverk Jafnréttis stofu eingöngu að sjá til þess að yfirliti sé skilað en það sé hlutverk þess ráðherra er fer með jafnréttismál að leggja mat á stöðu verkefna framkvæmdaáætlanir í jafnréttismálum samkvæmt 10. gr. jafnréttislaga. Þá sé það á höndum jafnréttis fulltrúa í samstarfi við starfsmann Jafnréttis stofu að fylgja eftir og tryggja framgang aðgerða í hverju ráðuneyti fyrir sig.“

Mér fannst mikilvægt að þetta kæmi hér fram. Við þurfum að huga vel að því hvernig starf Jafnréttis stofu á að þróast áfram með það að leiðarljósi að við erum að auka alla umgjörð er snýr að jafnréttismálum.

Í nefndarálitinu er einnig fjallað um vinnumarkað og launajafnrétti kynjanna og var töluvert rætt um það að á sínum tíma var stofnaður aðgerðahópur um launajafnrétti sem vann afar vel enda skipaður fagfólki í hverju horni. Afrakstur vinnu þessa hóps var m.a. jafnlaunastaðall stjórnarinnar. Það sem má segja í framhaldi gagnvart þeirri vinnu, af því að við erum að velta fyrir okkur hvernig við getum komist áfram, er að fram kemur í álitinu að gáfulegt væri að framlengja skipun þessa hóps, enda má segja að verkefnin séu ærin. Við erum núna með jafnlaunastaðal og jafnlaunavottun sem tekur á jöfnum launum innan stofnana og fyrirtækja. Það sem vantar upp á er að við getum farið að huga að því að hvernig sömu laun verði tryggð innan sambærilegra stofnana, ég nefni jafnvel Landspítala — og Sjúkrahúsið á Akureyri sem mér verður tíðrætt um. Kannski er niðurstaðan sú að það sé ekki hægt en gæti verið sjónarmið að velta því fyrir sér. Það á þá eins við um sveitarfélög, a.m.k. af svipaðri stærðargráðu.

Jafnlaunastaðallinn byggir á svokallaðri starfaflokkun þannig að það er flókið að finna út úr því þegar við ætlum að fara að innleiða jafnlaunavottun eftir því sem við förum neðar og niður í minni stofnanir og fyrirtæki því að það er býsna kostnaðarsamt að innleiða jafnlaunastaðalinn. Það verður fróðlegt að heyra hvernig það gengur.

Í nefndarálitinu er aðeins minnst á lengingu fæðingarorlofs og seinna í dag verður rætt frumvarp um að lengja það orlof í skrefum. Það er ágætt að minnast þess að í gær kom fram í fjölmiðlum umsögn Geðverndar sem tekur fram að fæðingarorlof eigi að taka til þess að tryggja hag barnsins. Það er líka snúið vegna þess að fæðingarorlof byggir á þörfum vinnumarkaðar þannig að þetta var ágætt innlegg í þá umræðu sem verður seinna í dag.

Það er einnig farið ítarlega í jafnrétti hvað varðar menntun og menningu, íþrótta- og æskulýðsstarf. Það er ánægjulegt að sjá að í framhaldinu fari fram vinna um aðgerðir sem á að móta í samvinnu við Samband íslenskra framhaldsskólanema. Það er ánægjulegt að sjá að haft skuli vera beint samráð við nemendur sjálfa og ég fagna því.

Í lokin vil ég aðeins nefna kafla er kallast Karlar og jafnrétti. Talað er um að auka þurfi vitund karla um ábyrgð sína og hlutverk. Það er sett í sambandi við #metoo eða #églíka og mér finnst það mjög gott ef við náum að taka þar einhver skref. Mér finnst jafnframt mjög gott að sjá að tekið er til þess að karlar eigi að taka þátt í jafnréttisbaráttunni á eigin forsendum. Það er mjög gott að sjá þetta þarna.

Að síðustu er fjallað um alþjóðastarf. Árið 2015 kom ég að skrifum skýrslu um jafnrétti á norðurslóðum sem var gerð í tíð þáverandi utanríkisráðherra, hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar, þar sem fjallað var um hvernig áhrif jafnrétti hefði á kynin á norðurslóðum. Það var býsna sláandi að sjá þann stóra mun sem allar þær breytingar sem við stöndum núna frammi fyrir höfðu á kynin.

Ég læt þetta duga að sinni og vona að málið fái góðan framgang á þingi.