150. löggjafarþing — 45. fundur,  13. des. 2019.

fæðingar- og foreldraorlof.

393. mál
[18:46]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það er líka til Félag einstæðra foreldra og ég hefði viljað sjá umsögn frá þeim. Mögulega hefði hún komið hefðum við verið að vinna þetta mál í aðeins lengri tíma og ég hefði líka viljað fá fleiri gesti, t.d. kom eins og hv. þingmaður nefndi umsögn frá Geðverndarfélagi Íslands. Það er flott umsögn og þar kemur fram, með leyfi forseta:

„Sú breyting sem er lögð til með þessu frumvarpi felst í því að tryggja foreldrum, ekki barninu, rétt til samvista, þrátt fyrir að markmiðsgrein laganna, sem áður var vitnað til, orði það skýrt að markmiðið sé að tryggja barninu rétt til samvista.“

Þetta er mjög mikilvægt og er sjónarmið sem við fengum ekki að heyra í nefndinni af því að það er ofboðslega mikil flýtimeðferð á þessu máli. Réttilega snýst þetta frumvarp um að lengja orlofið en þarna er verið að koma á einhverri skiptingu og það er gert áður en við erum búin að fá niðurstöður frá nefnd sem er að vinna málin. Í þeirri nefnd finnst mér ekki augljóst að áherslan sé á réttindi barnsins heldur miklu meira réttindi foreldranna. Þá veltir maður fyrir sér hver niðurstaðan verði og hvort hún sé í samræmi við markmið laganna. Það finnst mér bagalegt.