150. löggjafarþing — 47. fundur,  17. des. 2019.

fæðingar- og foreldraorlof.

393. mál
[12:06]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta langt. Mér fannst bara vel að orði komist hjá hv. þingmanni þegar hún sagði að það væru vond skilaboð sem birtust í bráðabirgðaákvæði meiri hluta velferðarnefndar þar sem þingið á hér og nú að taka afstöðu til ágreinings sem á bara að ræða hér í góðu tómi næsta haust. Það eru vond skilaboð en þau eru líka fullkomlega óþörf vegna þess að ef breytingartillaga mín nær fram að ganga stendur frumvarpið alveg jafn vel, þá tekur lenging upp í tíu mánuði gildi á næsta ári, fjórir, fjórir, tveir. Hér er ráðherra falið að koma með frumvarp um útfærslu á tólf mánuðum á haustþingi og þá getum við bara samþykkt það og látið taka gildi áramótin þar á eftir. Þessi vonda tillaga meiri hluta velferðarnefndar er þeim mun óskiljanlegri vegna þess að hún er fullkomlega óþörf.