150. löggjafarþing — 47. fundur,  17. des. 2019.

fjáraukalög 2019.

364. mál
[12:54]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Við erum í 3. umr. um fjáraukalagafrumvarp. Það var kallað til nefndar milli 2. og 3. umr. og ég vil gera örlitla grein fyrir umfjöllun nefndarinnar á milli umræðna sem og þeim breytingartillögum sem gerðar eru við málið. Nefndin kallaði eftir viðbrögðum fjármálaráðuneytisins vegna ábendinga sem fram komu í umsögn ríkisendurskoðanda. Ráðuneytið kom á fund fjárlaganefndar og skilaði inn sérstöku minnisblaði, auk þess sem ráðuneytið brást við spurningum nefndarmanna á fundinum um einstaka liði og útgjaldatilefni í tengslum við skilyrði 26. gr. laga um opinber fjármál þar sem kveðið er á um að tilefnin verði að vera tímabundin, ófyrirséð og óhjákvæmileg, enda hafi ekki verið unnt að bregðast við með öðrum úrræðum eins og þar segir.

Það er sannarlega vilji nefndarinnar, og kom fram í álitum bæði meiri hluta og minni hluta við 2. umr., að fara yfir þessi skilyrði og hvort þau megi endurskoða án þess að gefa nokkuð eftir um það aðhald og þann aga sem slík skilyrði þurfa að veita og ná þeim markmiðum að draga úr vægi fjárauka. Þá leggur nefndin áherslu á að notkun varasjóða, bæði er varðar málaflokka sem og almenna varasjóðsins, þurfi að vera markvissari og að nefndin hafi tök á að fylgjast með þeirri notkun og hafa reglubundið yfirlit yfir þá notkun samhliða því að þeir verði notaðir sem það fjárstjórnartæki sem lögin ætla þeim, þeir verði þannig notaðir markvissar og jafnvel fyrr, frá miðju ári eins og lögin heimila.

Þá er mikilvægt að ársskýrslur ráðherra greini frá öllum frávikum og viðbrögðum við því, þar með talið notkun varasjóða, bæði með fjárlagaferlið og framkvæmd fjárlaga. Þetta snýst um það samhengi sem er klárlega markmið laganna og nýtist þá nefndinni sem það tæki.

Þá er það mat nefndarinnar að fram þurfi að fara markviss endurskoðun á lögum um opinber fjármál í samhengi við þá reynslu sem byggst hefur upp frá þeim tíma að þau voru samþykkt og tóku gildi, 1. janúar 2016. Meiri hlutinn taldi ekki þörf á framhaldsnefndaráliti en ég vildi koma þessu á framfæri. Kollegar mínir í hv. fjárlaganefnd geta bætt um betur.

Hér legg ég svo fram tvær breytingartillögur sem komu til á milli umræðna. Önnur tillagan er lagfæring á breytingum sem voru gerðar í frumvarpinu sjálfu og hin er um breytingu sem átti sér stað við 2. umr. Í sjálfu frumvarpinu til fjáraukalaga var lagt til að 9 millj. kr. færðust af fjárfestingu yfir á rekstur hjá rannsóknarnefnd samgönguslysa. Nú hefur komið í ljós að aðeins voru 8 millj. kr. í fjárlögum á fjárfestingarliðnum og það yrði ankannaleg staða ef staðan yrði mínus 1 millj. kr. í fjárheimildum. Nú er lagt til að færa 1 millj. kr. til baka til leiðréttingar á millifærslu í frumvarpinu.

Við 2. umr. var síðan í seinna tilvikinu gert ráð fyrir að færa 12,3 millj. kr. rekstrarframlag af lið Sjúkratrygginga yfir til Sjúkrahússins á Akureyri vegna flutnings verkefna heimahlynningar til sjúkrahússins. Fjárheimild fjárlaga á þessum lið Sjúkratrygginga er öll skráð sem rekstrartilfærslur en ekki rekstrarframlög. Rekstrarheimild stendur því með mínus 12,3 millj. kr. og nú er lagt til að bæta úr þessu með millifærslu inn á lið Sjúkratrygginga þannig að rekstrarframlög hækki um 12,3 millj. kr. á móti lækkun rekstrartilfærslna um 12,3 millj. kr. Í sjálfu sér hefði ekki neitt stórkostlegt gerst en þetta hefði ekki litið vel út á pappír, virðulegur forseti, og við því er brugðist hér.

Ég vil síðan nota tækifærið og þakka nefndinni fyrir vinnu við frumvarpið. Óhætt er að segja að nefndin sé einhuga í því að kappkosta bætt vinnubrögð og verklag og skerpa á öllum þáttum í tengslum við það sem ég fór yfir áðan, notkun varasjóða og það markmið okkar að draga úr umfangi fjáraukans, og allt það sem betur má fara í tengslum við lagarammann í fjárlagaferlinu og þar með talið því frumvarpi sem við ræðum hér og þannig styrkja eftirlitsþátt nefndarinnar og þingsins.