150. löggjafarþing — 47. fundur,  17. des. 2019.

sjálfstætt eftirlit með starfsemi og starfsháttum lögreglu.

7. mál
[13:33]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar um tillögu til þingsályktunar um sjálfstætt eftirlit með starfsemi og starfsháttum lögreglu. Tillagan felur í sér að fela forseta Alþingis að leggja fyrir forsætisnefnd Alþingis að semja lagafrumvarp um sérstaka stofnun á vegum Alþingis sem hafi sjálfstætt eftirlit með starfsemi og starfsháttum lögreglu.

Nefndin tók við umsögnum og gestum eins og hefð er fyrir og ræddi málið og leggur til að tillagan verði samþykkt með breytingum sem ég ætla að gera lauslega grein fyrir. Ég ætla að gera aðra tilraun til að rjúfa þá hefð að lesa einfaldlega upp nefndarálitið og segja frekar frá innihaldi þess með mínum eigin orðum. Svo vísa ég til þess til nánari skýringa.

Hæstv. dómsmálaráðherra hefur nýlega fjallað um það opinberlega að breytinga væri þörf á eftirliti með lögreglu með tilliti til þess að nefnd um eftirlit með lögreglu er að störfum. Hún hefur starfað núna í þrjú ár eða svo og ýmislegt hefur komið í ljós sem má bæta þar, t.d. það að hana vantar rannsóknarheimildir og heimildir til að koma að meðferð mála. Í dag snýst starf nefndarinnar í meginatriðum um það að koma í réttan farveg kvörtunum og kærum sem berast henni, ýmist í gegnum lögregluna sjálfa eða frá borgurum landsins.

Á sínum tíma, í mars 2015, þegar þessi tillaga var fyrst lögð fram hafði sú nefnd ekki hafið störf. Það er ein af þeim breytingum sem hafa orðið síðan tillagan var fyrst lögð fram og það hefur áhrif á framvindu málsins. Breytingar nefndarinnar snúa að því að sníða tillöguna til samræmis við m.a. hugmyndir hæstv. dómsmálaráðherra sem hæstv. ráðherra hefur gert grein fyrir í fjölmiðlum þannig að frekar en að stofna endilega til nýrrar stofnunar eins og gert var ráð fyrir í upprunalegu tillögunni er tillögutextinn útvíkkaður þannig að hæstv. dómsmálaráðherra er gefið meiri svigrúm til að nýta þá nefnd sem þegar er fyrir hendi eða ákveða fyrirkomulagið með öðrum hætti sem þykir heppilegra eftir því hvernig reynslan er metin af þeirri nefnd sem hefur starfað og öðrum stofnunum sem gætu haft áhrif á hvernig framvindan verður.

Annað sem hefur breyst frá því að tillagan var fyrst lögð fram er að núna er lögreglunám á háskólastigi. Í upprunalegri tillögu áttu fyrrverandi lögreglumenn helst ekki að sinna þessu eftirliti með lögreglu. Það hefur verið gagnrýnt eitthvað og viðraðar áhyggjur, sér í lagi frá lögreglumönnunum, fyrrverandi lögreglumönnum og reyndar öðrum í stjórnkerfinu, af því að þá myndi skorta innsýn og innsæi í lögreglustörfin sem kannski væri heppilegt að hafa við þetta eftirlit, sér í lagi ef stofnunin er að rannsaka málið sjálf, þ.e. stofnunin, nefndin eða hvernig sem það kemur til með að vera. Þarna eru tvö sjónarhorn á sama hlutinn, annars vegar að við viljum tryggja að faglega sé haldið á málum og að rannsakendur hafi þekkingu á málaflokknum sem þarf til að fara vel með málin og hins vegar getur skapast tortryggni gagnvart því að fullmikill skilningur sé á því hvernig hlutirnir séu gerðir þannig að rannsakendur upplifi sig á einhvern hátt skilningsríkari gagnvart þeim sem er verið að rannsaka en þeim sem eru að kvarta.

Eins og ég nefndi áðan hefur lögreglunám færst á háskólastig síðan tillagan var upphaflega lögð fram. Það er mjög jákvæð þróun að mínu mati og flestra sem þekkja til, hygg ég. Því er alveg hægt að ímynda sér að einhver fari í lögreglunám og útskrifist úr því og hafi þá þekkinguna og reynsluna sem þurfi til að sinna þessu starfi án þess að hafa endilega reynslu af lögreglustörfum. Í nefndarálitinu er þetta hins vegar skilið eftir heldur opið. Á þetta er bent á og lagt til að þeir sem standa að þessum rannsóknum hafi tilheyrandi menntun eða starfsreynslu. Það er aðeins opnara.

Sömuleiðis er í upphaflegri tillögu gert ráð fyrir því að hin nýja stofnun verði undirstofnun Alþingis á borð við umboðsmann Alþingis eða Ríkisendurskoðun en í ljósi þess sem ég nefndi áðan, að hæstv. dómsmálaráðherra hefur þegar boðað að það verði skoðað að útvíkka störf nefndarinnar, er það mat lagt í hendur hæstv. dómsmálaráðherra sjálfs og ekki bundið við tillögutextann. Þá er gert ráð fyrir því að reynslan af nefnd um eftirlit með lögreglu verði nýtt og sömuleiðis skýrsla sem var minnst á í störfum nefndarinnar, skýrsla frá lagadeild Kaupmannahafnarháskóla frá 2017, þar sem farið er yfir reynsluna af sjálfstæðu eftirliti í Danmörku. Þar er margt áhugavert að athuga sem nefndin leggur til að verði nýtt til starfsins og eins og kannski hefur komið fram er tillögunni beint til hæstv. dómsmálaráðherra en ekki til forseta Alþingis eins og var áður.

Þá er rýmri frestur veittur til að skila vinnunni í formi frumvarps um sjálfstætt eftirlit. Hann er til vors 2021 frekar en hausts 2020.

Ég hef nú lauslega gert grein fyrir efnisinnihaldi nefndarálitsins en vísa til þess sjálfs á þskj. 782. Undir álitið rita sá sem hér stendur, Helgi Hrafn Gunnarsson, og hv. þingmenn Páll Magnússon, Birgir Ármannsson, Steinunn Þóra Árnadóttir, Jón Steindór Valdimarsson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Oddný G. Harðardóttir og Þórarinn Ingi Pétursson.

Að þessu sögðu langar mig að lýsa frá minni eigin hendi einu sem mér finnst ekki varða málið efnislega sjálft heldur hvernig framþróun hefur verið í þessum málum. Þessi tillaga var upphaflega lögð fram 2015, áður en lögreglunám komst á háskólastig eins og ég sagði áðan og áður en nefnd um eftirlit með lögreglu hóf störf. Á þeim tíma var rökrætt þó nokkuð um það hvort þörf væri á svo mikilli yfirbyggingu. Þegar þáverandi hæstv. dómsmálaráðherra lagði til þessa nefnd vonuðum við, flutningsmenn tillögunnar á þeim tíma, að hún dygði en við vildum bíða og sjá, skoða reynsluna og meta þá í kjölfarið á því hvort tilefni væri til að leggja tillöguna aftur fram.

Tíminn leið, nokkur ár liðu og við fengum að sjá ársskýrsluna frá nefnd um eftirlit með lögreglu. Að mati flutningsmanna kom mjög snemma skýrt fram að vissulega væri ástæða til að útvíkka eftirlit með lögreglu. Svo er alltaf einhver blæbrigðamunur á milli stjórnmálamanna um það nákvæmlega hvernig þeir vilja útfæra það, hversu íburðarmiklar stofnanir þeir vilja stofna ef einhverjar o.s.frv.

Við meðferð þessa máls á Alþingi gerðist það hins vegar að dómsmálaráðherra fjallaði nýlega um það að eigin frumkvæði að útvíkka störf nefndar um eftirlit með lögreglu og nefndi þar ýmsa hluti sem passa mjög vel við þessa tillögu. Því lít ég svo á að um sé að ræða mál sem hafa komið úr tveimur ólíkum áttum en að hér eigi sér stað ákveðinn samruni þar sem þessi tillaga er nýtt, það sem í henni er að finna og þeim gögnum sem hún vísar til, til að hæstv. dómsmálaráðherra geti þá tekið þann bolta eftir þeirri lauslegu forskrift sem er að finna í tillögunni. Þá verð ég líka að segja að út frá mínu eigin persónulega mati eru nokkrir hlutir sem ég ímynda mér að við munum rökræða þegar umrædd frumvörp koma fram. Sem dæmi tel ég einsýnt að svona stofnun ætti heima undir Alþingi. Ég er ekki 100% viss um það en ég er þeirrar skoðunar sem stendur. Hæstv. dómsmálaráðherra hefur orðað það þannig, ef ég man rétt, að það yrði skoðað hvernig samband þessarar einingar, þessa eftirlitsaðila, við Alþingi yrði háttað. Ég hygg að sú rökræða muni bara eiga sinn tíma og sína stund og að þá verði farið yfir hvað sé æskilegast í þeim efnum, enda er hér um að ræða aðallega útfærsluatriði sem varða ekki beinlínis grunnprinsippið sjálft sem er það hvernig við ætlum að fara með mótvægi og aðhald gagnvart valdastofnunum í samfélaginu. Lögreglan hefur þá sérstöðu að geta beitt líkamlegu valdi í sínum reglulegu störfum á degi hverjum og þess vegna er þetta ákall frá flutningsmönnum þessarar tillögu um sjálfstætt eftirlit sem hafi rannsóknarheimildir og geti rannsakað mál gegn lögreglu á eigin forsendum, að eigin frumkvæði og að sjálfsögðu út frá einhverjum skilgreindum ramma laganna.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra, virðulegi forseti. Ég fagna því að þessi tillaga fái þennan stuðning í nefndinni, þakka nefndinni kærlega fyrir samstarfið og sömuleiðis hæstv. dómsmálaráðherra fyrir að hafa að eigin frumkvæði vakið máls á þessu sama atriði, sjálfstæðu eftirliti með störfum lögreglu. Ég verð þó að bæta því við að eins og oft kemur fyrir þegar rætt er um stofnanir samfélagsins þar sem á að veita eitthvert aðhald eða mótvægi eða jafnvel breyta einhverju fyrirkomulagi er þetta ekki gagnrýni á lögregluna. Þetta er hvorki gagnrýni á störf lögreglu né störf lögreglumanna. Þetta er einfaldlega eðlilegur hluti af því að búa í samfélagi þar sem eru valdastofnanir sem fara með vald til að beita líkamlegu valdi. Mér finnst mikilvægt að það komist alveg á hreint og það er reyndar í samræmi við það sem maður hefur heyrt frá lögreglumönnum, fyrrverandi sem starfandi, að þeim þætti mörgum sjálfum betra að hafa meira sjálfstætt eftirlit til að rammi þeirra væri skýrari vegna þess að það er eindreginn vilji allra þeirra sem ég hef talað við um þessi mál í lögreglunni að hlutirnir séu skýrir og faglegir, að það sé góður ferill til staðar til að útkljá öll vafamál. Auðvitað vilja lögreglumenn sinna sínu starfi að mestu af heilindum og í samræmi við lögin. Það kemur fram í öllum samtölum við lögreglumenn, að ég hygg, a.m.k. þeim samtölum sem ég hef átt við þá hingað til.

Nú ætla ég ekki að hafa þetta lengra, virðulegi forseti, og þakka nefndinni aftur fyrir gott starf og hlakka til að sjá niðurstöðu atkvæðagreiðslu um þetta mál.