150. löggjafarþing — 47. fundur,  17. des. 2019.

sjálfstætt eftirlit með starfsemi og starfsháttum lögreglu.

7. mál
[13:50]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Ég fagna því að þessi tillaga sé komin þetta langt, tillaga um að unnið verði að því að koma á fót sjálfstæðu eftirliti með störfum lögreglu. Þessi stefna Pírata er raunar eitt af fyrstu atriðunum sem vöktu athygli mína á Pírötum og varð til þess að ég hugleiddi að ganga í þann flokk og berjast fyrir stefnu hans — okkar stefnu. Í lok árs 2013 kom mjög skýrt í ljós hversu brýn þörfin á sjálfstæðu eftirliti með störfum lögreglu var þegar maður nokkuð féll fyrir hendi lögreglu. Þegar ég kannaði það mál á þeim tíma sem sjálfstætt starfandi blaðamaður komst ég að þeirri niðurstöðu að það fyrirkomulag sem við höfðum stæðist ekki þær kröfur sem Mannréttindadómstóll Evrópu og mannréttindasáttmáli Evrópu gera til aðildarríkja sinna þegar kemur að því að virða rétt borgaranna til lífs og virða rétt borgaranna til að sæta ekki pyndingum og annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hvers vegna? Vegna þess að jákvæðar skyldur sem hljótast af því að ríkið megi ekki taka líf án mjög þröngra skilyrða og sömuleiðis að ríkið megi ekki án nokkurra undantekninga pynda eða beita fólk ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eru m.a. í því faldar að komi upp grunur um að brotið hafi verið á þessum réttindum eiga borgararnir skýlausan rétt á því að fram fari óháð, skilvirk rannsókn sem sé aðgengileg almenningi og að fjölskylda viðkomandi og einstaklingurinn sjálfur ef ekki er um mannslát að ræða hafi aðgang að gögnum og upplýsingum um framgang málsins. Sjálfstæð, óháð rannsókn er ein af meginstoðum þessara jákvæðu skyldna ríkisvaldsins til að tryggja rétt borgara sinna til lífs og vernd þeirra frá pyndingum og annarri vanvirðandi meðferð eða refsingu. Ef einstaklingur lætur lífið af völdum einhvers sem tilheyrir ríkisvaldinu ber ríkisvaldinu líka skylda til þess að rannsókn á því máli sé í fyrsta lagi framkvæmd en sé líka framkvæmd á þann hátt að hún sé hafin yfir allan vafa.

Þetta á líka við ef um ásakanir um pyndingar eða aðra ómannúðlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu er að ræða. Til þess þarf að vera fyrir hendi stofnun sem er sjálfstæð í stigveldi og þá gildir það stigveldi bæði upp og niður, þ.e. yfirmenn eiga ekki að rannsaka undirmenn sína og undirmenn eiga ekki að rannsaka yfirmenn sína innan sömu stofnunar. Þetta er til að tryggja sjálfstæði rannsóknarinnar. Sjálfstæði þarf líka að vera fjárhagslegt og í tilfelli lögreglunnar eða löggæsluyfirvalda þarf að vera fyrir hendi frumkvæðisréttur þessara rannsóknaraðila og ákæruvald. Í þessari tillögu er ekki gengið svo langt að leggja til að umræddri stofnun verði fært ákæruvald. Hún verður eftir sem áður mjög góð og það er mjög gott að hafa hæstv. dómsmálaráðherra í salnum vegna þess að ég vildi einfaldlega leggja áherslu á að hæstv. dómsmálaráðherra taki til skoðunar þá hugmynd að viðkomandi stofnun hafi ákæruvald vegna þess að það tryggir enn betur sjálfstæði stofnunarinnar og er eitt af þeim skilyrðum sem Mannréttindadómstóllinn hefur sett fram sem mikilvægt til að tryggja sjálfstæði slíkra stofnana.

Þetta er allt gert með réttindi borgaranna í huga en jafnframt hagsmuni lögreglunnar. Hún hefur hagsmuni af því að sjálfstæð stofnun geti farið yfir viðkvæm mál sem lögreglan getur ekki endilega tjáð sig um opinberlega. Geti borgararnir trúað á niðurstöður þessarar stofnunar, geti þeir treyst því að hún sé sannarlega sjálfstæð, hlutlaus og skilvirk, styrkir það trú okkar allra á réttarríkinu. Það held ég að sé hagur sem við öll viljum vinna að.

Ég fagna þessu góða máli og þakka sér í lagi flutningsmanni þess, hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni, en einnig hv. allsherjar- og menntamálanefnd fyrir góða vinnu og ég hvet hæstv. dómsmálaráðherra til dáða í að fylgja henni eftir.