150. löggjafarþing — 49. fundur,  20. jan. 2020.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan.

[16:32]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Forstofuherbergið er góður staður að vera á, segi ég bara við hv. þingmann og þakka honum fyrir andsvarið. Þegar ég hef farið yfir þau mál sem tíunduð eru í stjórnarsáttmálanum sé ég að mjög góður gangur er í eftirfylgni og framkvæmd mála þannig að ég kannast ekki við það að forstofuherbergi ríkisstjórnaríbúðarinnar sé hlaðið málum. Mér telst til að málið sem hv. þingmaður nefnir hér, sem er frumvarp umhverfis- og auðlindaráðherra um miðhálendisþjóðgarð, sé statt í samráðsgátt Stjórnarráðsins og að því ferli eigi að ljúka í dag þannig að ég vænti þess að nú verði unnið úr þeim umsögnum. Ég vil bara segja um það mál að þetta er stór hugmynd. Ég átta mig á því að miðhálendisþjóðgarður er stór hugmynd og ég hef heyrt ýmsa þingmenn úr ýmsum flokkum segja að mikilvægt sé að vanda sig og ég er sammála þeim. Ég er sammála því að það er mikilvægt að vanda sig. Ég held hins vegar að þetta sé frábær hugmynd sem kveðið er á um í stjórnarsáttmála og ég hef ekki miklar áhyggjur af því að við munum ekki finna góðar lausnir á þeim (Forseti hringir.) athugasemdum sem hafa komið fram sem varða m.a. þátttöku heimafólks í stjórnun þessa garðs. Ég hef ekki miklar áhyggjur af því að við finnum ekki góðar lausnir á því. Það er mikilvægt að vanda sig þegar við erum að vinna með stórar hugmyndir.