150. löggjafarþing — 49. fundur,  20. jan. 2020.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin fram undan.

[16:42]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er einmitt kjarni vandans. Það er að raungerast það sem ríkisstjórnin var vöruð við í upphafi þessa kjörtímabils, að farið væri af stað með allt of mikla bjartsýni að leiðarljósi varðandi almenna útgjaldaaukningu ríkissjóðs og á sama tíma væri verið að svelta mikilvæga fjárfestingu hins opinbera. Nú væri gott að eiga uppi í erminni núna fjárfestingaraukningu þegar hagkerfið er að kólna eins og svo fjölmargir spáðu. Aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar hefur verið áberandi á fleiri sviðum. Lækkun bankaskatts var frestað akkúrat á þeim tímapunkti sem það hefði getað komið fjármagnskostnaði atvinnulífsins til góða. En nei, því var slegið á frest. Það hefur ekkert verið gert varðandi uppbyggingu fjármálakerfisins og nauðsynlega hagræðingu til að það geti þjónað betur hagkerfinu okkar, atvinnulífinu okkar, fólkinu okkar og síðast en ekki síst — en það var auðvitað aldrei á dagskrá þessarar ríkisstjórnar — hefur ekkert verið gert varðandi gjaldmiðilinn okkar, en 5% sprota- og tæknifyrirtækja okkar nefna að þetta sé góður gjaldmiðill, 75% segja hann slæman eða alslæman.