150. löggjafarþing — 49. fundur,  20. jan. 2020.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin fram undan.

[17:14]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið — eða svarið sem hann kláraði að vísu ekki, en minni á að Landvernd eru fjölmennustu hagsmunasamtökin landsins þegar kemur að náttúruvernd og umhverfismálum þannig að það er ekki undarlegt þó að við kjörnir fulltrúar hlustum á það sem þaðan kemur.

Í seinni hluta ræðu sinnar fór hv. þingmaður líka mikinn er varðar borgarlínuna og talaði um að það væri arfaslæmt verkefni. Ég er fullkomlega sammála því sem hv. þm. Guðmundur Andri Thorsson sagði hér áðan. Það er gríðarlega gott og þarft verkefni, þó fyrr hefði verið. En mig langar líka að heyra frá hv. þingmanni hvernig hann sjái fyrir sér að draga úr bílaumferð, draga úr mengun, sem er nota bene heilsufarslegt vandamál og gríðarlega alvarlegt heilsufarslegt vandamál. En mig langar að fá það fram hjá hv. þingmanni hvernig hann sjái þetta fyrir sér því að það er afskaplega sjaldan sem við heyrum úr munni hv. þingmanns (Forseti hringir.) lausnir á því vandamáli sem íbúar höfuðborgarsvæðisins og þeir sem sækja hingað vinnu úr nærliggjandi sveitarfélögum þurfa að glíma við í formi mengunar og bílaumferðar.