150. löggjafarþing — 49. fundur,  20. jan. 2020.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin fram undan.

[18:03]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það var athyglisvert að hlusta á ræðu hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra. Allan stjórnartíma Sjálfstæðisflokks og fylgiflokka hans eftir tiltektina í kjölfar bankahruns hafa innviðir verið vanræktir þrátt fyrir hagsæld. Vanrækslan hefur birst okkur víða undanfarnar vikur í vegakerfinu, flutningskerfi raforku, snjóflóðavörnum, já, og í heilbrigðiskerfinu.

Frá aldamótum hefur landsmönnum fjölgað um 25% en 65 ára og eldri hefur fjölgað um 60%. Við hér á landi setjum langtum minna fjármagn í heilbrigðiskerfið en samanburðarlönd og þá þýðir ekkert að benda á unga þjóð því að við erum líka fá og því er hagfræðilega óhagkvæmara að reka hér gott heilbrigðiskerfi.

Ég spyr: Telur hæstv. fjármálaráðherra ekki nóg komið af því að svara starfsfólki heilbrigðiskerfisins með skætingi um að nóg sé gert þegar ástandið þar blasir við okkur öllum á hverjum degi?