150. löggjafarþing — 49. fundur,  20. jan. 2020.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin fram undan.

[18:06]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Tölum um tölur. Hæstv. fjármálaráðherra lætur skattgreiðendur borga að óþörfu 230.000 kr. á sólarhring á bráðamóttöku Landspítala vegna þess að sjúklingar komast ekki á fullar eða lokaðar deildir á sjúkrahúsinu sem kosta 70.000 kr. á sólarhring. Hæstv. fjármálaráðherra lætur skattgreiðendur borga að óþörfu 230.000 kr. á sólarhring fyrir sjúklinga á bráðamóttöku Landspítala í Fossvogi í stað þess að borga 40.000 kr. fyrir sólarhringinn á öldrunarheimilum. Hæstv. fjármálaráðherra lætur skattgreiðendur borga að óþörfu ferða- og dvalarkostnað fyrir íbúa landsbyggðarinnar sem ekki geta sótt grunnheilbrigðisþjónustu í heimabyggð og færir þá á Landspítala sem er algjörlega yfirfullur.

Þrátt fyrir að við séum mögulega ekki sammála um margt, hæstv. fjármálaráðherra, getum við ekki verið sammála um að þetta sé afskaplega óskynsamleg ráðstöfun á skattfé landsmanna?