150. löggjafarþing — 49. fundur,  20. jan. 2020.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin fram undan.

[18:24]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að við komumst lítið áfram með kjaraviðræður hér í þingsal. Ég hafna því að sporin hræði. Dæmin sýna að við höfum náð á endanum niðurstöðu sem varð til þess að starfskjörin stórlöguðust, ekki bara á Landspítalanum heldur hjá heilbrigðisstéttum almennt. Það sem málið snýst um núna er í miklu ríkari mæli annað en launaliðurinn. Auðvitað þarf að fá niðurstöðu sem sátt er um þar en hún verður líka að kallast á við niðurstöðu á hinum almenna markaði. Það sem málið snýst um núna er hið krefjandi verkefni að breyta vaktafyrirkomulaginu og það er í ágætissamtali og ég fullyrði að okkar fólk sem situr við samningaborðið ríkismegin stendur sig vel í því samtali.

Það sem ég hef meiri áhyggjur af en þessum einstöku samningum er skortur á hjúkrunarfræðingum almennt, ekki bara á Íslandi þar sem þeir eru margir hverjir í öðrum störfum eða inni á heilbrigðisstofnunum ekki að sinna sjúklingum heldur í einhvers konar stjórnunarstörfum, heldur bara almennt á Norðurlöndunum. Það er líklega skortur upp á tugi þúsunda hjúkrunarfræðinga (Forseti hringir.) í nágrannalöndunum og svo stöndum við frammi fyrir þeirri staðreynd að þjóðin er að eldast. Það er ástæða til að hafa áhyggjur af því.