150. löggjafarþing — 49. fundur,  20. jan. 2020.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin fram undan.

[18:29]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður ætlar mér margt, að vera á móti Klíníkinni og einkarekstri í heilbrigðisþjónustu. Þetta er bara rangt. Ég nenni ekki að leggja á langt mál um það, það er enginn fótur fyrir þessu. Hins vegar lætur hv. þingmaður eins og við séum með einhvers konar réttindakerfi í almannatryggingum þar sem fólk eigi rétt á að fá útgreiðslur alveg óháð öllu öðru. Þetta er rangt. Það er rangt að við skerðum lífeyristekjur fólks með almannatryggingakerfinu. Við gerum það ekki. Ríkið tekur ekki krónu af fólki sem hefur sparað sér í lífeyri og hyggst nýta hann á efri árum, (Gripið fram í.) tekur ekki krónu af fólki. Allt þetta er rangt, það er ítrekað farið með rangt mál í þingsal um nákvæmlega þetta. (ÞorS: Ég spurði ekki um það.) Þetta er það sem hv. þingmaður fullyrti. Hins vegar erum við með kerfi fyrir þá sem eru veikast settir, það eru almannatryggingar og ellilífeyrir þeirra og við nýtum þá fjármuni til þess að styðja þá sem hafa (Forseti hringir.) minnst á milli handanna, minnst í lífeyristekjur, atvinnutekjur og aðrar tekjur til að framfleyta sér. (Forseti hringir.) Ég ætla ekki að halda því fram að það væri ekki gott að geta hækkað skerðingarmörkin (Forseti hringir.) og það hefur verið á stefnuskrá okkar að gera það. (Forseti hringir.) En það er rangt að við séum að taka af fólki lífeyrisréttindi.