150. löggjafarþing — 49. fundur,  20. jan. 2020.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan.

[18:45]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og svo oft áður er einmitt svör að finna í stjórnarskrá sem hefur ákvæði um náttúruna, ákvæði sem er virkilega mikilvægt að við fáum sem okkar stjórnarskrárákvæði til verndar náttúrunni.

Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að ég minntist ekki á þetta atriði í ræðu minni. Ég hefði svo sem átt að gera það vegna þess að í loftslagsmálunum og í baráttu, sérstaklega barna, fyrir því að við bregðumst við loftslagsvánni með fullnægjandi hætti, sem ég svara hv. þingmanni með að við séum alls ekki að gera nóg til þess að bæta úr, birtist einmitt líka sú taktík að skjóta sendiboðann. Hún birtist kannski ekki beint í málflutningi ríkisstjórnarinnar í þetta skipti en við sjáum með loftslagsaðgerðasinnann Gretu Thunberg að það er heldur betur ráðist á þann sendiboða og gert lítið úr henni fyrir sína baráttu. Við heyrum líka að Miðflokkurinn notar þessa taktík sem er kannski runnin úr stjórnmálaskóla Sjálfstæðisflokksins, ef hann kemur einhvers staðar að, að skjóta sendiboðann. Í þessu tilfelli er talað um að það sé einhvern veginn verið að hræða börn með því að segja þeim sannleikann um stöðuna í dag, að það sé verið að koma inn hjá þeim einhvers konar ofsakvíða. Ég veit ekki hverjir eiga að vera á bak við það, en það eru ekki vísindamennirnir sem eru að upplýsa okkur um stöðuna í dag heldur einhver ill öfl sem eru að reyna að hræða börn og það er sendiboðinn sem er skotinn í því tilfelli.

Vissulega er brýnt að minnast á þetta mikilvæga atriði líka og ég held að við hv. þingmaður séum að mörgu leyti mjög sammála um þær aðgerðir sem þarf að grípa til, enda sammála um grænan samfélagssáttmála sem við lögðum saman fyrir þingið. Í ljósi tímans leyfi ég mér að vísa í að þar er að finna mjög umfangsmiklar aðgerðir sem ég myndi vilja sjá okkur gera betur í þegar kemur að loftslagsmálum.