150. löggjafarþing — 49. fundur,  20. jan. 2020.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin fram undan.

[20:24]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U) (andsvar):

Virðulegur forseti. Spurningin er góð vegna þess að ég held að þetta sé eitt af því flóknasta í samstarfinu við ríkisstjórnarborðið. Viðfangsefnin sem blasa við eru svo klassísk. Þetta snýst um grundvallarspurninguna um jöfnuð í samfélaginu, um það hvernig við deilum út gæðum, ekki bara innan okkar lands heldur á milli landa. Þar skiptir máli að fólk sé samhent og ég óttast að íhaldssamari hægri armur ríkisstjórnarinnar sé bara ekki búinn að átta sig á því hvað klukkan slær af því að baráttan gegn loftslagsbreytingum þarf að eiga sér stað í dag.

Baráttan fyrir jöfnuði í gegnum fjórðu iðnbyltinguna þarf að eiga sér stað í dag. Tökum bara eitt lítið dæmi sem við höfum rætt áður í þingsal. Stjórnarflokkarnir komu sér saman um að allar stærri áætlanir ríkisstjórnarinnar yrðu metnar út frá áhrifum þeirra á loftslagsmál. Síðasta vetur fengum við til afgreiðslu stærstu áætlun hverrar ríkisstjórnar, liggur nærri að megi segja, samgönguáætlun, sem var ekki metin með þessum hætti. Aftur kom hún í haust, ekki sérstaklega metin út frá áhrifum á loftslagsmál, þó að þar eigi að reisa innviði samgöngukerfisins okkar sem munu standa næstu áratugina. Það lofar ekki góðu að þetta sé gert hálfblindandi út frá því hvaða áhrif kerfin munu hafa á framtíðina.