150. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2020.

málefni innflytjenda.

457. mál
[14:41]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Það er ljóst að það á í raun og veru ekki að gera greinarmun á kvótaflóttamönnum og þeim sem koma hingað til lands og óska eftir alþjóðlegri vernd og fá síðan dvalarleyfi. Þá vil ég spyrja hæstv. ráðherra í þessu sambandi: Er þá ekki alveg ljóst að það verða að fylgja fjárheimildir? Nú er það svo að á síðasta ári held ég að það hafi verið um 84 einstaklingar frá Venesúela sem fengu hér dvalarleyfi, sem er sami fjöldi og kvótaflóttamenn á þessu ári. Þessu fylgja væntanlega fjárútgjöld og þá er ljóst að það þarf að eyrnamerkja það í fjárlagafrumvarpinu. Í þessum efnum held ég að sé nokkuð ljóst að menn verða vera fyrirhyggjusamir. Í því sambandi er kannski rétt að spyrja ráðherra að því hvort það geti ekki verið svolítið áhyggjuefni að nú, ef við tökum Venesúela sem dæmi, hafa allir verið samþykktir eða fengið dvalarleyfi sem komið hafa þaðan. Ég geri ekki lítið úr ástandinu í Venesúela, síður en svo. En er ekki sú hætta fyrir hendi að ef þetta kerfi verður svona að það verði veruleg aukning á fjölda flóttamanna sem koma til landsins með þeim hætti, eins og frá Venesúela? Þurfa ekki að fylgja því fjárheimildir?