150. löggjafarþing — 52. fundur,  23. jan. 2020.

stofnun hálendisþjóðgarðs og skipulagsvald sveitarfélaga.

[10:47]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir fyrirspurnina. Til umræðu hjá hv. þingmanni er í raun skipulagsvald sveitarfélaganna á þessu svæði. Ég vil byrja á því að leiða okkur að þeirri reynslu sem fengist hefur af Vatnajökulsþjóðgarði. Vatnajökulsþjóðgarður er um margt, þegar kemur að stjórnskipulagi, alveg gríðarlega áhugaverð nálgun sem við þekkjum ekki mjög víða annars staðar vegna þess að hún er lýðræðisleg. Þetta er nálgun þar sem sveitarstjórnarfólk, umhverfisverndarsamtök, útivistarsamtök og ferðamálasamtök koma að því að búa til stefnumótun fyrir svæði þjóðgarðsins. Þetta hefur gengið mjög vel og það hefur gengið svo vel að móta þessar stefnur á þessu stigi að teljandi vandamál hafa ekki komið upp. Það er sú reynsla sem við horfum til þegar við erum að smíða stjórnfyrirkomulagið fyrir nýjan hálendisþjóðgarð. Við erum reyndar að bæta því við að fulltrúi bænda komi líka inn í þennan hóp sem ég held að sé mikilvægt, sérstaklega vegna þess að stór svæði munu bætast við þar sem bændur eru að nýta þetta land. Þannig að reynslan af Vatnajökulsþjóðgarði nýtist okkur þarna inn í það stjórnfyrirkomulag sem við erum að teikna upp. Ef við berum saman það vald sem sveitarfélögin hafa á þjóðlendum í dag og það sem þau hefðu eftir að þessi breyting yrði þá er það síst minna vegna þess að í dag koma náttúrlega bæði ríki og sveitarfélög að því að ákveða í hvers konar framkvæmdir er ráðist á svæðunum og þannig verður það áfram. Fyrir nú utan það, eins og hv. þingmaður nefndi, að sveitarfélögin eru, eins og tillagan er sett fram núna, í meiri hluta í þessum svæðis- eða umdæmisráðum og þar með hafa þau heilmikið um það að segja hvers konar ákvarðanir eru teknar þegar stjórnar- og verndaráætlun er unnin sem er áætlun fyrir þjóðgarðinn og skipulagsyfirvöldum ber vissulega að taka mið af.