150. löggjafarþing — 52. fundur,  23. jan. 2020.

endurgreiðslur skerðinga lífeyrisgreiðslna.

[10:52]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Endurgreiðslur vegna ólöglegra skerðinga á ellilífeyri frá lífeyrissjóðunum hafa farið fram. Það var fullyrt hér í þessum ræðustól að þær endurgreiðslur hefðu aðallega runnið til þeirra sem hæst lífeyrislaun hafa. Þetta var fullyrt hvað eftir annað. Nú hef ég fengið tölfræðina um þessa niðurstöðu og ef við horfum á niðurstöðuna, brotið niður, þá fór þetta aðallega, 25.000 einstaklingar af 29.000, til einstaklinga með undir 300.000 kr. á mánuði. Eru þeir sem eru með 300.000 kr. á mánuði hátekjufólk í augum þessarar ríkisstjórnar? Við verðum að átta okkur á því að fjölmennasti hópurinn þarna undir, 10.500 manns, er fólk sem var að fá undir 100.000 kr. úr lífeyrissjóði. Þar eru 23.000 kr. teknar af á mánuði. Og hvað spara þeir sér mikla peninga á þessu tímabili, á tveimur mánuðum? Við verðum að átta okkur á því að þarna eru undir um 2,6 milljarðar á tveimur mánuðum fyrir 300.000 kr. Ef við tökum bara 100.000 kr. erum við að tala um innan við 3 milljarða. Og horfum á bankaskattinn, veiðigjöldin og hugsum með okkur: Hvers vegna í ósköpunum, og ég vil fá svar hjá ráðherra, fullyrti hann, og hafði rangt fyrir sér, að þetta rynni eingöngu til hálaunamanna? Og hvers vegna í ósköpunum eru þeir ekki búnir að koma því í gegn að fólk sem er með undir 100.000 úr lífeyrissjóði sé ekki skert?