150. löggjafarþing — 52. fundur,  23. jan. 2020.

stefna stjórnvalda í matvælaframleiðslu.

[12:28]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég fagna mjög þessari umræðu um matvælastefnu ríkisstjórnarinnar en verkefnisstjórn sem hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra setti á fót til að móta stefnuna átti að skila vinnu sinni nú í árslok 2019 með aðgerðaáætlun með tillögum að innleiðingu fyrir atvinnulíf og stjórnkerfi. Það er miður að sú vinna hafi tafist en ég hvet verkefnisstjórnina og ráðherra til dáða í þeim efnum. Áður en ég held lengra vil ég segja að ég tel að það hefði verið farsælt að eiga fulltrúa grænmetisframleiðenda, fyrirtækja í nýsköpun og kannski ekki síst fulltrúa Samtaka grænkera og umhverfisverndarsamtaka í verkefnisstjórninni.

Í heimsmarkmiði Sameinuðu þjóðanna nr. 2, sem fjallar um að útrýma hungri, er áhugavert að lögð er áhersla á að til að útrýma hungri beri m.a. að stuðla að sjálfbærum landbúnaði, en helstu áskoranir sem Ísland standi frammi fyrir séu að efla sjálfbæra þróun í fiskveiðum og landbúnaði og að efla lífræna og heilnæma framleiðslu ásamt því að tryggja framfærslu allra landsmanna. Þessi tvö atriði, að efla sjálfbæra þróun og efla lífræna og heilnæma matvælaframleiðslu, er því miður ekki að finna í markmiðum verkefnisstjórnarinnar.

Mig langar líka, eins og fleiri þingmenn hafa gert, í ræðu minni að vekja athygli á grænmetisrækt og kannski ber þar hæst grein Vigdísar Fríðu Þorvaldsdóttur, meðstjórnenda í Samtökum grænkera, sem var birt í gær og fjallar um stöðu grænmetisræktar á Íslandi með tilliti til sjálfbærni og nýsköpunar. Vigdís segir þar að málefni grænkera varði ekki einungis hagsmuni grænkera heldur samfélagsins í heild og mikilvægt sé að efla grænmetisrækt í landinu. Embætti landlæknis hefur sömuleiðis tekið undir það og hvatt til þess að fólk borði meira grænmeti og allar helstu alþjóðastofnanir á sviði heilsu og næringar mæla með aukinni neyslu ávaxta og grænmetis.

Þó að margt sé vel gert hér á Íslandi þá getum við að sjálfsögðu gert betur þegar kemur að grænmetisrækt. Ein af okkar dýrmætustu auðlindum er jarðvarminn og hann mætti nota meira til grænmetisræktar. Þá er líka mikilvægt að skoða hvort ekki sé hægt að leyfa grænmetisræktendum að njóta (Forseti hringir.) sambærilegra afsláttarkjara af rafmagni og stóriðjan fær. Þetta höfum við rætt hér í þingsal í allt að 20 ár og hvet ég hæstv. ráðherra til dáða í þeim efnum.