Bráðabirgðaútgáfa.

150. löggjafarþing — 53. fundur,  28. jan. 2020.

vextir á endurgreiðslur frá Tryggingastofnun.

[13:45]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ég verð að segja að það verður gaman þegar kórinn okkar verður settur á laggirnar, sem er alveg að gerast, því að þá getur hann kannski fengið að syngja sama sönginn. Þennan söng söng ráðherra nefnilega fyrir hv. þm. Guðmund Inga Kristinsson í Flokki fólksins í síðustu viku, talaði um tekjutíundir og tekjuþríundir og tekju-þetta og tekju-hitt.

Staðreyndin er sú að brotin voru lög á borgurunum. Það er ekki flóknara en það og ég spyr hæstv. ráðherra: Mælir hann þessu bót? Eigum við þá að mismuna fólki eftir efnahag, hvort löggjafinn getur brotið á þeim lög eða ekki? Hvað er hæstv. ráðherra að fara með svona málflutningi? Þar fyrir utan vona ég að mín ástkæra móðir sé að horfa á þetta fyrst hún er dregin hér inn persónulega og prívat. Ég er algjörlega steinhissa, virðulegi forseti. Fyrir utan það er hún sérstaklega varin af lögmanni sem í þessu tilviki vildi svo heppilega til að var valinn til þess að fara með málið fyrir dómskerfið þar sem hún er sennilega ein af þeim fáu sem er með svo lélegan lífeyrissjóð að hún fékk gjafsókn.

Burt séð frá því hvort það er móðir mín eða móðir hæstv. ráðherra er það ekki það sem málið snýst um hér. Hvað ætlar hæstv. ráðherra að gera í ljósi þess að hér er enn verið að brjóta lög?