150. löggjafarþing — 53. fundur,  28. jan. 2020.

hlutdeild landsbyggðar í auðlindatekjum.

[13:50]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Hér er hreyft mjög áhugaverðu og mikilvægu máli. Það er reynslan eftir mjög mikla uppbyggingu ferðaþjónustunnar á undanförnum árum að hátt hlutfall ferðamanna gistir yfir nóttina á höfuðborgarsvæðinu en sækir út, sérstaklega á Suðurlandið, til að upplifa náttúruna sem þar er. Þegar um er að ræða náttúrufyrirbrigði, fossa, Geysi eða svarta sanda og annað sem hægt er að sækja þangað og er dagleið frá Reykjavík kemur upp sú umræða sem hv. þingmaður nefnir hér. Ég myndi vilja nefna viðleitni stjórnvalda á undanförnum árum til að bregðast við þessu, m.a. með því að við settum upp fyrir nokkrum árum Framkvæmdasjóð ferðamannastaða þar sem við gerðum sveitarfélögum og öðrum þeim sem eru starfandi í ferðaþjónustu kleift að sækja stuðning til stjórnvalda til að byggja upp innviðina. Ég verð líka að nefna sóknaráætlanir sem hafa verið sífellt betur fjármagnaðar á undanförnum árum og hafa í margvíslegum tilgangi, ekki bara vegna ferðaþjónustunnar, gagnast til að dreifa af meiri sanngirni og í betra samráði við heimamenn fjármunum sem Alþingi leggur til þess málaflokks.

Ég verð líka að halda því til haga að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga er fyrirbrigði sem er fjármagnað af öllum almennum skatttekjum ríkissjóðs að hluta til og er m.a. ætlað að jafna stöðu sem getur haft þá birtingarmynd sem hv. þingmaður lýsir hér.

Í stjórnarsáttmálanum höfum við rætt um það í tengslum við viðræður milli ríkis og sveitarfélaga um fjárhagsleg samskipti að til greina komi að gera breytingar á gistináttaskattinum en ekki er kominn skriður á þær viðræður. Það er ekki gott að segja til um hvernig það mál endar en þetta eru engu að síður liðir sem eiga að koma til móts við þær þarfir sem spretta upp vegna aukinnar ferðaþjónustu í landinu.