150. löggjafarþing — 53. fundur,  28. jan. 2020.

útgreiðsla persónuafsláttar.

[14:56]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Ég hef tvær mínútur, ég veit ekki hvar ég á að byrja. En mér finnst bara mikilvægt að tala aðeins um að þessi hugmynd, eins og hæstv. fjármálaráðherra nefndi, er ekkert ný. Einn helsti talsmaður hennar er Milton Friedman sem er þekktasti hagfræðingur frjálshyggjunnar. Sú útgáfa sem hér er til umræðu, útgreiðsla ónýtts persónuafsláttar á Íslandi, er meira að segja ívið minni í sniðum en upprunalega hugmyndin um neikvæðan tekjuskatt vegna þess að persónuafslátturinn á mánuði er mjög lágur. En tækifærin sem felast í aðgerðinni eru engu að síður fjölmörg.

Það sem mér finnst kannski mikilvægt að ræða líka er hvernig eigi að borga fyrir þetta. Þetta er ekkert ódýrt, það er rétt. En það er langt frá því að vera óyfirstíganlegt vandamál. Upphæðin er hófleg og vel hægt að gera ráð fyrir henni án þess að setja rekstur ríkisins á hliðina. Ég held að við séum ekki að tala um þannig upphæðir. Fjórðungur upphæðarinnar ratar beint aftur inn í kerfið í formi virðisaukaskatts og framlög til LÍN munu lækka að einhverju marki og fljótlega mun svo árangur aðgerðarinnar tikka inn, t.d. í minni kostnaði við brottfall nemanda, en hann hleypur á tugum milljarða á hverju ári. Mikilvægi þessa sem ég er að tala um hérna er að við sem hér sitjum og ríkisstjórnin tökum að okkur smáfrumkvöðlahugsun, þ.e. nýsköpunarhugsun, horfum aðeins út fyrir kassann og prófum nýja hluti. Þetta er ekki útúrfríkuð hugmynd. The Economist er að tala um þetta. Milton Friedman hefur talað um þetta. Obama hefur talað um þetta. Það eru fjölmargir þekktir aðilar og vel metnir hagfræðingar sem hafa talað um þessa hugmynd og það er verið að setja hana í samhengi við fjórðu iðnbyltinguna og hvernig við sem samfélag eigum að bregðast við henni.

Mér finnst afleitt að hlusta á þingmenn eins og hv. þm. Óli Björn Kárason tala um að það sé ekki hægt að gera þetta því að ungu fólki sé ekki treystandi fyrir þessum peningum, það muni bara eyða honum í vitleysu og fara til útlanda eða í eitthvert rugl. Hvað er þetta? Þetta er keimlíkt umræðunni um að það eigi ekki að gefa fátæku fólki pening, það fari bara beint út í búð og kaupi sér áfengi og tóbak og vímuefni. Það er bara búið að sýna það með rannsóknum og tilraunum að þetta er rangt. Þetta er rangt og við getum alveg treyst ungu fólki og 60.000 kall — við erum að tala um það, útgreiddur, ónýttur persónuafsláttur, 60.000 kall — er ekki bara að stoppa fólk við að fara í vinnuna. Af hverju er okkur svona annt um að senda ungt fólk í sumarvinnu? (Forseti hringir.) Það búið að vera tíu mánuði ársins í hörðu námi. Má það ekki fá sér smáfrí ? Ef sumarvinnan er svona æðislega skemmtileg fær það sér hana þrátt fyrir að fá 60.000 kr. á mánuði frá ríkinu í útgreiddan persónuafslátt eða persónuarð, eins og ég kýs að kalla það hér með.