150. löggjafarþing — 53. fundur,  28. jan. 2020.

stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019--2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019--2023.

148. mál
[15:32]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þessi aðgerð um skuldaviðmiðið snýr einmitt að því að það verði greint hvort þetta sé skynsamlegt. Fyrir nefndinni komu ekki fram sérstaklega upplýsingar varðandi þetta mál en mín þekking segir mér nú að það er ábyggilega víða sem skuldahlutfallið er yfir þessu viðmiði og við þekkjum það líka að það eru sveitarfélög sem hafa verið að berjast við að komast niður í 150%, sveitarfélög þar sem einhverra hluta vegna hefur þurft að bregðast við með uppbyggingu vegna mikillar íbúafjölgunar eða einhverra breytinga á aðstæðum, tilfærslna innan sveitarfélags. Við þekkjum núna t.d. lítil sveitarfélög þar sem er hröð uppbygging, við getum nefnt Vík í Mýrdal og Skútustaðahrepp, og ég get ekki ímyndað mér annað en að slíku uppbyggingartímabili fylgi ákveðin skuldasöfnun.