150. löggjafarþing — 55. fundur,  30. jan. 2020.

örorka kvenna og álag við umönnun.

[11:23]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda, hv. þm. Guðmundi Andra Thorssyni, kærlega fyrir að hefja máls á þessu. Ég verð að segja að upplýsingar sem koma úr nýrri skýrslu Eurostat, um að 9% fullorðinna Íslendinga sinni umönnun, samanborið við það sem gerist í löndum sem við berum okkur almennt saman við, og getum í sjálfu sér með fullum rétti talað um að við séum með svipað velferðarsamfélag, eru sláandi þó að auðvitað hafi maður haft einhverja tilfinningu fyrir þessu.

Hv. þingmaður vísar líka í rannsókn Kolbeins Stefánssonar um vaxandi hóp kvenna sem greinist með örorku. Ég ætla að leyfa mér líka að nefna það að í þeirri skýrslu sýnir Kolbeinn fram á, á mynd yfir þróun fjölda áætlaðra æviára við góða heilsu, en þar hafa karlmenn alltaf verið eilítið ofar, að á síðustu árum hefur verið að myndast gríðarlegur munur og má segja að árin eftir hrun séu þar vendipunktur, að þar komi fram grundvallarmunur á því hversu margra góðra æviára karlmenn njóti miðað við konur, að konur njóti mun færri góðra æviára miðað við karlmenn.

Staðreyndin er sú, þó að hæstv. heilbrigðisráðherra sé hér til svara, að þetta er mál sem varðar mjög marga. Vegna þess að við erum að tala um umönnun þá er þetta í fanginu á hæstv. heilbrigðisráðherra en þetta kemur öllum við. Þetta kemur öllum ráðherrum ríkisstjórnar við, þetta kemur þingheimi við, þetta kemur sveitarfélögum við, þetta kemur almenningi við. Það er alveg rétt sem hæstv. ráðherra segir að lausnin felst í auknum sveigjanleika og það er ekki ein lausn sem hentar öllum. Þess vegna velti ég því upp hér að ég myndi vilja sjá, og þar getur hæstv. ráðherra kannski tekið boltann, verkefni fara af stað sem lúta að samvinnu þeirra aðila sem best til þekkja, þ.e. hjúkrunarheimila, sjúkrastofnana, sveitarfélaga og einstaklinga sem eru með einhverja þjónustu. Við tölum oft um teymisvinnu og þarna held ég að teymisvinna gæti virkað vel. Við viljum hafa hjúkrunarheimilin okkar í lagi. Við viljum líka að sem fæstir fari þangað og sem síðast. En við viljum að á meðan fólk er að nýta önnur úrræði að þau séu líka mjög góð. Það er fullt af fólki sem kann vel til verka hérna og við getum ekki unnið þetta í einangruðum sílóum upp og niður. Við verðum að vinna þetta saman. Þetta er samfélagsverkefni.