150. löggjafarþing — 56. fundur,  3. feb. 2020.

forvarnir og heilsuefling eldri borgara.

[16:08]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Willum Þór Þórssyni fyrir að hefja máls á þessu mikilvæga málefni og þakka fyrir að taka þátt í þessari umræðu. Líkaminn hefur lítið breyst en lífsstíllinn hefur breyst mikið. Heilbrigðisvísindi eru í hraðri framþróun og auknar líkur til þess að við verðum eldri og þá má líka gera ráð fyrir að við búum við betri heilsu. En við verðum líka að gera ráð fyrir því að við þurfum að vinna að því að svo verði. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur gefið það út að 70% allra sjúkdóma í heiminum í dag stafi af hreyfingarleysi, reykingum og mataræði. Hreyfing læknar ekki allar sjúkdóma en sem meðferðartækni í heilbrigðisþjónustu getur hún læknað ýmsa sjúkdóma eða bætt líðan sjúklinga verulega.

Lýðheilsa er samheiti yfir heilsuvernd og forvarnir. Við getum gert ráð fyrir því að verða eldri en formæður okkar og -feður en það er ekki nóg að tala um árafjölda. Lífsgæði skipta líka máli. Við getum bætt líðan okkar með forvörnum. Þær eru margvíslegar og geta t.d. falist í aukinni vitund um að hlúa betur að líkama sínum. Svo megum við ekki gleyma andlega hlutanum en hann skiptir líka miklu máli í heildarsamhenginu. Tækifæri til þess hafa aukist til muna á undanförnum árum með heilsueflingarverkefnum en hver og einn ber ábyrgð á því að gera sitt besta til að viðhalda heilsu sinni. Stjórnvöld og atvinnulífið þurfa að vera í takti við þarfir samfélagsins. Endurmenntun er góð leið til að viðhalda færni líkt og hreyfing eykur líkamlega heilsu. Virkni í nærsamfélaginu viðheldur félagslegri færni. Við lifum í sífellt hraðari heimi og það verður sífellt meiri þörf fyrir að huga að því hvernig við getum ferðast á sama hraða án þess að brenna upp.

Virðulegi forseti. Það er sameiginleg ábyrgð stjórnvalda, atvinnulífsins og einstaklingsins að glæða árin lífi.