150. löggjafarþing — 56. fundur,  3. feb. 2020.

forvarnir og heilsuefling eldri borgara.

[16:15]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Nýverið samþykkti Alþingi þingmál sem ég lagði hér fram um þunglyndi eldri borgara. Ein af þeim aðgerðum sem þar er lögð áhersla á er aukin áhersla á hreyfingu og heilsueflingu eldri borgara. Við þurfum nefnilega að líta á þessi mál heildstætt. Auðvitað er beint samband milli líkamlegrar og andlegrar heilsu. Þunglyndi er helmingi meira hjá öldruðum en hjá öðrum aldurshópum. Íslendingar eiga heimsmet í notkun þunglyndislyfja og kvíðastillandi lyfja og þá eru vísbendingar um að sjálfsvígum á meðal eldri borgara sé að fjölga þannig að vandinn er grafalvarlegur. Við þurfum að huga mun betur að því hvernig eldri borgurum líður í okkar samfélagi. Nú þegar fjöldi eldri borgara mun tvöfaldast á næstu 30 árum mun áskorun stjórnvalda hvað þetta varðar aukast til muna.

Heilsuefling eldri borgara, lýðheilsa þeirra, forvarnir og andleg vellíðan á að vera svo sjálfsögð að slíkt á að vera innprentað í allar opinberar áætlanir sem lúta að þessum hópi. Ég tel t.d. að í kröfulýsingu stjórnvalda fyrir hjúkrunarrými þurfi að taka mun betur tillit til andlegrar heilsu aldraðra. Svo virðist sem kerfið geri ekki beinlínis ráð fyrir því að aldraðir geti verið með ADHD eða einhverfu eða glími við kvíða, fíknisjúkdóma eða áfallaröskun.

Herra forseti. Það er fyrst og fremst mikilvægt að hlusta á eldri borgara sjálfa í mótun allra aðgerða.

Herra forseti. Ef við erum heppin, þá fáum við að eldast. En það skiptir ekki bara máli að bæta árum við lífið heldur þarf einnig að bæta gæðum við árin.