150. löggjafarþing — 56. fundur,  3. feb. 2020.

forvarnir og heilsuefling eldri borgara.

[16:17]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka líka fyrir að þetta mál sé til umræðu því að ég held að hér sé um risastórt mál að ræða. Hér er búið að fara vel yfir þetta og ræða mikið um forvarnir og hreyfingu sem skiptir miklu máli. Mig langaði að koma inn á fleiri þætti. Mér hafa þótt mjög áhugaverðar rannsóknir sem hafa verið gerðar á svokölluðum bláum svæðum, svæðum í heiminum þar sem langlífi virðist vera hvað mest. Nýverið var gerður íslenskur þáttur um þetta þar sem íslenskt samfélag er líka tekið inn í. Niðurstaða þeirra rannsókna virðist vera sú að það séu um átta þættir sem skipti mjög miklu máli, þættir sem þessi svæði eigi sameiginlega.

Eitt þeirra er tilgangur. Hver er tilgangurinn með því að lifa lengi? Hvaða tilgang hef ég í samfélaginu?

Svo er það samfélagið sjálft, hvernig virðing er borin fyrir þeim sem eru að eldast.

Það er virkni, sem við höfum rætt mikið hérna sem skiptir auðvitað miklu máli, bæði heilsuefling sem slík og að hreyfa sig, en líka virkni í samfélaginu, virkni á hverjum einasta degi, að geta gengið út í búð, heimsótt fólkið sitt og gert það sem maður vill gera.

Svo er hvíldin.

Það er fólkið mitt, fjölskyldan, og þar stöndum við Íslendingar oft mjög vel vegna þess að við erum tiltölulega lítið samfélag. Það er líka áhugavert að sjá í þessum þáttum hversu margt eldra fólk býr áfram heima hjá sér og með fjölskyldu sinni.

Síðan er æðri máttur sem mér fannst mjög áhugavert. Ég held að það skipti miklu máli að trúa á eitthvað æðra, hvað sem það kann að vera.

Að lokum er það viðhorf og næring.

Ég held, virðulegur forseti, að við þurfum að velta þessum þáttum mun meira fyrir okkur sem kemur m.a. til af því að þjóðin er að eldast. En hver segir að fólk þurfi að hætta að vinna við 67 ára aldur eða 70 ára? Má fólk ekki vinna lengur ef það vill? Hefur fólk ekki ýmislegt til málanna að leggja þrátt fyrir að kennitalan segi að maður sé orðinn sjötugur?

Ég þakka enn og aftur fyrir þessa umræðu. (Forseti hringir.) Ég held að hér sé margt sem við getum tekið til okkar og gert enn betur þótt við séum að gera ýmislegt vel. Ég held að umræðan sé rétt að byrja.