150. löggjafarþing — 56. fundur,  3. feb. 2020.

sýslumannsembætti.

289. mál
[17:33]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla að blanda mér í þessa umræðu um sýslumannsembættin sem er mjög mikilvæg og ég vil þakka málshefjanda. Ég ætla að rifja það upp að á síðasta ári skilaði Ríkisendurskoðun skýrslu um samanburð milli sýslumannsembættanna og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd tók þá skýrslu fyrir og skilaði áliti til þingsins sem hefur þó ekki fengið neina sérstaka umfjöllun í þingsal. Þar er m.a. lögð mikil áhersla á það að dómsmálaráðuneytið hraði vinnu við mótun framtíðarsýnar fyrir sýslumannsembættin og vil ég því fagna því sem kom fram í máli hæstv. ráðherra að unnið sé að því hratt og vel. Mikilvægt er að umfang verkefnanna sem embættin sinna nú þegar liggi fyrir til þess að mögulegt sé að greina tækifæri til nýsköpunar í stjórnsýslunni til að bæta þjónustu embættanna þar sem henni hefur í raun hrakað meðan þessi sýn liggur ekki fyrir.